Um 225 féllu í mótmælum

Frá Teheran, höfuðborg Írans. Þar, sem og í um 40 …
Frá Teheran, höfuðborg Írans. Þar, sem og í um 40 öðrum borgum, brutust út hörð mótmæli vegna eldsneytishækkana. Talið er að yfir 200 manns hafi fallið í átökum við íranskar öryggissveitir í nóvember. AFP

Innanríkisráðherra Írans hefur gefið í skyn að um það bil 225 manns hafi látist í mótmælum sem brutust út í landinu í nóvember, en fólk safnaðist þá saman til að mótmæla hækkun eldsneytisverðs. 

Yfirvöld í landinu hafa enn ekki birt opinberlega tölur yfir látna í tengslum við atburðinn. Mannréttindasamtökin Amnesty International í London telja að yfir 300 hafi látist.

Mótmælin brutust út 15. nóvember í Teheran, höfuðborg Írans, og ekki leið á löngu þar til mótmæli brutust út í að minnsta kosti 40 borgum í landinu. Mótmælendur kveiktu í eldsneytisdælum, réðust á lögreglustöðvar og verslanir voru rændar. Írönsk yfirvöld sendu öryggissveitir á vettvang til að kveða óeirðirnar niður en á sama tíma lá nánast allt netsamband niðri í landinu. 

Íranskir embættismenn hafa ítrekað neitað þeim tölum sem erlendir fjölmiðlar og mannréttindasamtök hafa nefnt yfir þá sem létust í óeirðunum. 

„Sorglegir atburðir eiga sér stað. Á bilinu 40-45 manns, sem jafngildir um 20% þeirra sem létust, hafi verið skotnir með óhefðbundnum vopnum og gerðir að píslarvottum,“ sagði Abdolreza Rahmani Fazli, innanríkisráðherra Írans, í viðtali við írönsku ríkisfréttastofuna ISNA. 

„Það áttu sér engin vopnuð átök stað gegn almenningi [...] en þegar fólkið réðst á lögreglustöð þurfti að mæta því,“ sagði ráðherrann enn fremur.

Miðað við ummæli Fazli má reikna með að á bilinu 200 til 225 manns hafi fallið í átökunum í nóvember. 

mbl.is