Elísabet Bretadrottning á fleygiferð á hestbaki

Elísabet Bretadrottning hefur engu gleymt þrátt fyrir að hafa verið …
Elísabet Bretadrottning hefur engu gleymt þrátt fyrir að hafa verið innilokuð í einangrun undanfarið. AFP

Elísabet Bretadrottning var mynduð í fyrsta skipti utandyra í gær eftir að útgöngubann skall á í Bretlandi 23. mars sl. Hin 94 ára Elísabet sást njóta lífsins á hestbaki á Balmoral Fern, 14 ára gömlum hesti. Ekki var að sjá að aldursmunurinn hefði áhrif á sambandið enda fór einkar vel á með þeim.

Drottningin hefur verið í einangrun með eiginmanni sínum Filippusi prins og starfsfólki þeirra í Windsor-kastala en hún sást síðast opinberlega 19. mars þegar henni var ekið þangað frá Buckingam-höll. BBC greinir frá.

Hún hefur ávarpað þjóð sína tvisvar á meðan útgöngubannið hefur staðið yfir og í fyrra ávarpinu blés hún baráttuanda í brjóst landa sinna og fullyrti að breska þjóðin myndi hafa betur í baráttunni við veiruna.

Í því síðara minntist hún sigurs bandamanna á Þjóðverjum í síðari heimsstyrjöldinni á Sigurdeginum í Evrópu (e. Victory in Europe Day) sem haldinn er hátíðlegur 8. maí ár hvert.

mbl.is

Bloggað um fréttina