Forsætisráðherra Armeníu með veiruna

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, eiginkona hans og börn eru öll …
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, eiginkona hans og börn eru öll með COVID-19. AFP

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, sem varð 45 ára í dag, er með COVID-19. Hann greindi frá þessu í dag og sagði að hann væri kominn í einangrun heima hjá sér.

Í myndbandi sem hann birti á facebook-síðu sinni greindi hann frá því að sýnataka sem hann undirgekkst í gær hefði skilað jákvæðum niðurstöðum. Eiginkona hans og fjögur börn þeirra eru einnig sýkt en enginn fjölskyldumeðlimur er með einkenni.

Um þrjár milljónir manna búa í Armeníu og þar hafa 9.492 greinst smitaðir af veirunni og 139 látið lífið.

Heilbrigðiskerfi landsins er á yfirsnúning og eru allir spítalar fullir af COVID-sjúklingum. Í síðustu viku var greint frá því að aðeins þeir sem ættu bestu möguleikanna á bata myndu fá pláss á gjörgæsludeildum þar í landi.

Arsen Torosyan heilbrigðisráðherra sagði að af 186 gjörgæslurýmum í landinu væru einungis 32 laus og að þau myndu fyllast fyrr en síðar.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti hringdi í Pashinyan í dag, óskaði honum til hamingju með daginn og sendi honum um leið batakveðjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert