Kynþáttahatur „krónískur sjúkdómur“ í bandarísku samfélagi

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan Hvíta húsið í nótt. Kínversk …
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan Hvíta húsið í nótt. Kínversk stjórnvöld saka bandarísk stjórnvöld um tvöfalt siðgæði þegar kemur að mótmælum. AFP

Mótmælin og óeirðirnar í Bandaríkjunum síðustu daga endurspegla djúpstæð vandamál í bandarísku samfélagi, sem eru kynþáttahatur og lögregluofbeldi. Auk þess afhjúpa viðbrögð stjórnvalda við mótmælunum tvöfalt siðgæði þeirra í ljósi þess hve ötullega þau hafa stutt mótmæli íbúa Hong Kong.

Þetta sagði Zhao Lijian, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, við fjölmiðla í Peking og vísaði þá til máls George Floyd sem lést eftir að lögreglumaður kraup á hálsi hans.

„Líf þeldökkra skipta einnig máli. Mannréttindi þeirra verða að vera tryggð. Rasismi gegn minnihlutahópum í Bandaríkjunum er krónískur sjúkdómur í samfélaginu þar,“ sagði hann einnig og bætti því við að núverandi ástand í Bandaríkjunum endurspegli viðvarandi alvarlegt vandamál sem tengist lögregluofbeldi í garð þeldökkra og minnihlutahópa.

Mótmæli fara nú einnig fram í Hong Kong en af …
Mótmæli fara nú einnig fram í Hong Kong en af öðrum ástæðum og í Bandaríkjunum. AFP

Kalla þegna sína sem mótmæla rasisma „óeirðaseggi“

Talsmenn kínverskra stjórnvalda sem og ríkisfjölmiðlar hafa gert sér mat úr andláti George Floyd og óeirðunum sem fylgdu í kjölfarið.

Bandarísk stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir stuðningi við mótmælendur í Hong Kong sem mótmæla tilraunum Kínverja til að auka völd sín í sjálfsstjórnarhéraðinu. Það hefur farið mjög undir skinnið á hátt settum aðilum í Kína.

„Bandarísk stjórnvöld láta mikið með svokallað sjálfstæði Hong Kong og styðja þann málstað en á sama tíma heima fyrir kalla þau fólk sem mótmælir rasisma „óeirðaseggi“,“ sagði Zhao.

mbl.is

Bloggað um fréttina