Ofbeldið náði nýjum hæðum í nótt

Mótmælandi lyftir hendi sinni með krepptan hnefa.
Mótmælandi lyftir hendi sinni með krepptan hnefa. AFP

Ekkert lát er á mótmælaöldunni sem fer nú yfir Bandaríkin og ofbeldið hefur ekki verið meira síðan mótmælin hófust í kjölfar þess að lögreglumaður drap George Floyd með því að krjúpa á hálsi hans.

Útgöngubann gildir nú í tugum borga víða um Bandaríkin og þar á meðal höfuðborginni Washington. Víðast hvar hafa þessi boð og bönn verið hundsuð af mótmælendum og hefur komið til ofbeldisfullra átaka.

Kveikt var í sögulegri kirkju rétt hjá Hvíta húsinu. Fjölmiðlar ytra greina frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi um stund verið færður í neðanjarðarbyrgi á meðan mestu lætin áttu sér stað fyrir utan Hvíta húsið. BBC greinir frá.

Átök milli óeirðalögreglumanna og mótmælenda voru víða mjög mikil.
Átök milli óeirðalögreglumanna og mótmælenda voru víða mjög mikil. AFP

Þjóðvarðliðið aðstoðar í 15 ríkjum

Muriel Bowser, borgarstjóri Washington, lýsti yfir útgöngubanni sem tók gildi klukkan 23 að staðartíma og gilti til sex um morguninn. Hún kallaði út þjóðvarðlið Bandaríkjanna til að aðstoða lögregluna.

Lögregla beitti táragasi og blossahvellsprengjum (e. Flash bang) á mótmælendur til að dreifa úr mannfjöldanum en það leiddi til átaka milli lögreglu og mótmælenda. Mótmælendur hrópuðu slagorð, kveiktu elda og héldu á skiltum.

Óeirðalögreglumönnum lenti saman við mótmælendur í New York, Chicaco, Fíladelfíu og Los Angeles, þar sem táragasi var beitt og gúmmíkúlum var skotið að mótmælendum. Kveikt var í lögreglubifreiðum og verslunum.

Þjóðvarðlið Bandaríkjanna hefur verið kallað út til að aðstoða lögregluyfirvöld í 15 ríkjum. Mótmæli hafa farið fram í 75 borgum hið minnsta og hafa rúmlega 4 þúsund verið handteknir. Nokkrir hafa látið lífið.

Ótrúlegt að hann hafi ekki myrt fjölda fólks

Í Minneapolis var ökumaður olíuflutningabíls handtekinn eftir að hann keyrði á fullri ferð í gegnum tálmanir á brú og í átt að fjölda fólks sem hafði safnast saman á veginum. Hann hefur verið ákærður fyrir líkamsárás en ekki er vitað hversu marga hann slasaði eða hversu alvarlega.

Ríkisstjóri Minnesota, Tim Walz, sagði að óljóst væri hvað ökumanninum gekk til en það væri „ótrúlegt“ að hann hefði ekki orðið mörgum að bana.

Nokkur hundruð mótmælenda höfðu safnast saman á brúnni en náðu að koma sér undan bifreiðinni sem stöðvaði að lokum á miðri brúnni. Mótmælendur voru fljótir að umkringja bílinn og yfirbugðu ökumanninn sem var fluttur á sjúkrahús með minni háttar meiðsli.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum bentu margir á líkindi atviksins við það þegar hvítur karlmaður ók bifreið inn í hóp sem var þá að mótmæla rasisma í Charlottsville. Þá lést einn og tugir særðust. 

AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina