Prinsinn biðst afsökunar á partístandi

Jóakim prins af Belgíu.
Jóakim prins af Belgíu.

Jóakim prins af Belgíu hefur beðist afsökunar á að hafa brotið reglur um samkomubann á Spáni með því að taka þátt í samkvæmi í borginni Córdoba á fimmtudag. Aðeins mega 15 koma saman í einu á svæðinu, en í samkvæminu sem prinsinn sótti voru 27 gestir.

Prinsinn hef­ur nú greinst með kórónuveiruna og hafa allir gestir samkvæmisins verið settir í sóttkví. Spænska lögreglan hefur hafið rannsókn á brotum á sóttvarnareglum í veislunni og eiga þeir brotlegu yfir höfði sér allt að 10.000 evra sekt, jafnvirði um 1,5 milljóna króna.

„Ég iðrast gjörða minna innilega,“ segir í yfirlýsingu frá prinsinum sem gefin var út í gær. „Ég biðst afsökunar á að hafa ekki virt sóttvarnaráðstafanir á ferðalaginu. Á þessum erfiðu tímum vildi ég ekki móðga neinn,“ segir hann enn fremur.

Jóakim, sem er 28 ára gamall, er yngsti sonur Ástríðar prinsessu, yngri systur Filippusar Belgakonungs. Hann er tíundi í erfðaröð belgísku krúnunnar. Prinsinn hélt til Spánar frá heimalandinu á þriðjudag vegna starfsnáms en tveim­ur dög­um síðar mætti hann í umræddan gleðskap.

mbl.is