Bretar skoða loftbrýr til landa með lítið smit

Menn að leik í almenningsgarði í Lundúnum um helgina.
Menn að leik í almenningsgarði í Lundúnum um helgina. AFP

Bresk stjórnvöld hafa staðfest að þau skoði nú áform um að reisa loftbrýr til landa þar sem lítið er um smit kórónuveiru.

Samkvæmt reglum sem kynntar voru í síðasta mánuði munu allir sem ferðast til Bretlands að utan, frá og með 8. júní, þurfa að gangast undir tveggja vikna sóttkví. Undanskildir eru þeir sem koma frá Írlandi.

Samgönguráðherrann Grant Shapps sagði við þá kynningu að unnið væri með samgönguiðnaðinum að því að gera gagnkvæma samninga við önnur ríki um að ferðamenn þyrftu ekki á sóttkví að halda.

Gera þyrfti samninga við einstök ríki

AFP-fréttastofan greinir frá því að áformin gætu falið í sér samninga um svokallaðar loftbrýr. Þeir „myndu fjarlægja sóttkvíaraðgerðir og opna á öruggan hátt leiðir til og frá löndum með lítið smit“, segir meðal annars í nýrri yfirlýsingu frá ráðuneytinu.

„Samninga þyrfti að gera við einstök ríki áður en þessar ráðstafanir gætu tekið gildi,“ segir þar einnig.

mbl.is