Fæðingastað Hitlers breytt í lögreglustöð

Teikningar af framtíðarútliti byggingarinnar.
Teikningar af framtíðarútliti byggingarinnar. AFP

Austurísk stjórnvöld kynntu í dag fyrirætlanir um að fæðingastað Adolfs Hitler verði breytt í lögreglustöð. Stjórnvöld vonast til að húsið verði með breytingunum álitið „hlutlaust svæði“. 

Húsið er staðsett í bænum Braunau í norðurhluta Austurríkis, við landamærin að Þýskalandi. Hitler fæddist í húsinu 20. apríl 1889, en yfirvöld tóku við rekstri þess árið 2016. 

Jafnvel þó að Hitler hafi ekki búið lengi í húsinu hefur það lengi verið vinsælt á meðal velunnara nasista auk þess sem mótmæli á vegum and-fasískra hópa hafa farið fram við húsið á afmælisdegi Hitler í gegnum tíðina. 

Áætlað er að breytingar á húsinu munu kosta um 5 milljónir evra, rúmlega 750 milljónir króna. Til stendur að húsið haldi að mestu leyti sinni upprunalegu mynd með nokkrum útlitsbreytingum. Með aðgerðunum vonast stjórnvöld til þess að húsið og svæðið í kringum það, alls um 800 fermetrar, verði að hlutlausu svæði. 

Gerlinde Pommer og fjölskylda hennar fóru með eignarhald yfir húsinu í tæpa öld þar til Hæstiréttur Austurríkis dæmdi Pommer rúmlega 800.000 evrur í bætur vegna eignarnáms yfirvalda á síðasta ári. Pommer hafði leigt innanríkisráðuneyti Austurríkis húsið frá 8. áratugi síðustu aldar, en árið 2011 var því fyrirkomulagi hætt þegar Pommer neitaði að sjá um nauðsynlegt viðhald byggingarinnar. Húsið hefur staðið autt síðan þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert