Lofuðu Kína sem á sama tíma hélt eftir gögnum

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt WHO fyrir linkind gagnvart Kína.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt WHO fyrir linkind gagnvart Kína. AFP

Kínversk stjórnvöld voru treg til að deila mikilvægum upplýsingum um kórónuveiruna með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Þessi tregða pirraði æðstu embættismenn stofnunarinnar og dró úr viðbragðsgetu vegna faraldursins.

Þetta sýna skjöl sem AP-fréttastofan hefur undir höndum, auk fjölda viðtala.

Fréttastofan greinir frá því að á sama tíma og stofnunin lofaði Kína opinberlega, fyrir það sem hún sagði vera skjótt viðbragð við útbreiðslu veirunnar, hafi sagan verið önnur innan veggja stofnunarinnar. Þar hafi starfsmenn þurft að glíma við tilfinnanlegar tafir af hálfu kínverskra stjórnvalda, svekktir yfir að fá ekki allar þær upplýsingar sem nýst gætu í baráttunni við faraldurinn.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. AFP

Héldu áfram að tefja

Ljóst er nú að rannsóknarstofur Kína upplýstu aðeins um erfðamengi veirunnar eftir að annarri rannsóknarstofu utan Kína hafði tekist að greina það. Og jafnvel þá héldu kínversk stjórnvöld áfram að tefja með því að bíða í að minnsta kosti tvær vikur með að veita WHO nákvæm gögn um sjúklinga og tilfelli veirunnar.

Allt gerðist þetta á þeim tíma þegar enn gafst færi til að hægja verulega á útbreiðslu kórónuveirunnar um heiminn. Snemma í janúar voru enn færri en hundrað staðfest tilfelli. Í lok þess mánaðar nálgaðist talan tíu þúsund. Nú stendur hún í rúmlega sex milljónum.

Gagnrýnt WHO fyrir linkind gagnvart Kína

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanfarnar vikur gagnrýnt WHO fyrir að hafa ásamt Kína hylmt yfir alvarleika kórónuveirufaraldursins í upphafi og sýnt linkind gagnvart kínverskum stjórnvöldum. Forsetinn rauf tengslin við stofnunina á föstudag.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur síðan sagst munu veita stofnuninni aukið fjármagn til að verjast faraldrinum. Að auki fullyrðir hann að kínversk stjórnvöld hafi ávallt verið mjög tímanleg við upplýsingagjöf til WHO.

Opinber samstaða hafi verið besta leiðin

Samkvæmt alþjóðalögum er ríkjum skylt að deila með WHO gögnum um mögulega faraldra, og síðan er henni skylt að láta önnur ríki vita af þróun mála. En þetta fyrirkomulag reiðir sig á traust.

„WHO hefur alls enga burði til að láta ríki tilkynna — þetta er engin alþjóðalögregla,“ segir David Heymann, faraldsfræðingur og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri WHO, í samtali við breska dagblaðið Telegraph

Sérfræðingar segja það líklegt að stofnunin hafi metið það svo, að opinber samstaða með Kína hafi verið besta leiðin til að halda stjórnvöldum í Peking góðum.

„WHO er í mjög erfiðri stöðu,“ segir dr. Clare Wenham, prófessor í alþjóðaheilbrigðismálum við London School of Economics. „Þessar samræður gætu verið í gangi á bak við luktar dyr, en ef þær færu fram á opinberum vettvangi þá myndi það setja í hættu alla mögulega upplýsingamiðlun.“

mbl.is