Orð Floyd „bergmála um þjóðina alla“

Joe Biden ávarpar stuðningsmenn sína í dag.
Joe Biden ávarpar stuðningsmenn sína í dag. AFP

„Ég get ekki andað. Ég get ekki andað. Síðustu orð George Floyd, en þau deyja ekki með honum.Þau heyrast enn, bergmála um þjóðina alla.“ Svona hófst ávarp Joe Biden, forsetaefnis Demókrata, í ráðhúsi Philadelphia í Pennsylvaníu fyrri skömmu. 

250 mótmælendur voru handteknir í Philadelphia í gær. Hörð og blóðug mótmæli hafa átt sér stað víða um Bandaríkin síðustu daga eftir dauða Floyd, sem kafnaði þegar lögreglumaður kraup á hálsi hans í 8 mínútur og 46 sekúndur. 

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við heyrum þessi orð. En það er tími til kominn að það sé hlustað á þessi orð. Að við reynum að skilja þau. Að við bregðumst við þeim. Þjóðin kallar á leiðtoga. Leiðtoga sem getur sameinað okkur,“ sagði Biden. 

Í ávarpi sínu gagnrýndi Biden Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að fyrirskipa lögreglu að vísa friðsömum mótmælendum úr garði í Washington svo að hann gæti staðið fyrir framan Sankti Johns kirkjuna með Biblíuna í hendi. 

„Forsetinn hélt Biblíunni uppi við Sankti Johns kirkju í gær. Ég óska þess bara að hann myndi opna hana einstaka sinnum. Í staðinn fyrir að munda henni, ef hann bara opnaði hana gæti hann hafa lært eitthvað,“ sagði Biden. 

„Þegar friðsömum mótmælendum er tvístrað að beiðni forsetans og vísað frá húsi fólksins, Hvíta húsinu — með táragasi og blossahvellshandsprengjum — í því skyni að ná mynd við kirkju, okkur væri fyrirgefið fyrir að halda að forsetinn hafi meiri áhuga á valdi en gildum,“ sagði Biden. 

 

 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert