Skrítnar reglur sem ýta undir svindl

Ferðamenn mega ekki gista í Kaupmannahöfn.
Ferðamenn mega ekki gista í Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reglur sem settar hafa verið í Danmörku er varða opnun landamæra fyrir ferðamenn frá Íslandi, Nor­egi og Þýskalandi 15. júní nk. eru til þess fallnar að ýta undir svindl. Þá er flækjustigið jafnframt umtalsvert. Þetta segir Björg Birkhol Magnúsdóttir, sem búsett er í Albertslundi skammt frá höfuðborg Danmerkur Kaupmannahöfn. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að Íslendingar séu upplýstir um reglurnar enda súrt að kaupa miða og mega svo ekki koma inn í landið,“ segir Björg en ferðamönn­um er ekki heim­ilt að gista í Kaup­manna­höfn og ná­granna­bæn­um Frederiks­berg. Verður fólki ekki hleypt inn í landið nema það geti sýnt fram á að hafa bókað gist­ingu í að minnsta kosti sex næt­ur á hót­eli, tjaldsvæði, sum­ar­húsi eða þvíum­líku utan höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Verða að útbúa leigusamninga

„Þú verður í raun að vera ferðamaður eða þá að geta sýnt fram á að þú eigir foreldri eða barn búsett á svæðinu. Ekki er nóg að um skyldmenni sé að ræða. Til að mynda má systir mín ekki koma í heimsókn til mín heldur verður hún að vera með gistingu. Hún má koma sem ferðamaður en ekki skyldmenni,“ segir Björg. 

Að hennar sögn geta reglurnar skapað talsverð vandræði fyrir Íslendingar enda mikil fjölskyldutengsl milli landanna. „Þetta þýðir að fólk þarf að útbúa leigusamninga við óskylda eða minna skylda aðila áður en það kemur. Að öðrum kosti verður það stoppað við landamærin,“ segir Björg sem furðar sig á reglunum. „Þetta eru mjög skrítnar reglur. Auðvitað er fólk í verri aðstöðu á ýmsum stöðum í heiminum en það er mikilvægt að við komum þessu til skila fyrir Íslendingar,“ segir Björg. 

mbl.is