Skýrslan gríðarleg vonbrigði

Bærinn Ischgl í aprílmánuði.
Bærinn Ischgl í aprílmánuði. AFP

Búið er að gefa út 1.000 blaðsíðna bráðabirgðaskýrslu ríkislögreglustjórans í Týról í Austurríki um viðbrögð yfirvalda við faraldri kórónuveiru. Eins og mbl.is greindi frá í maímánuði voru sjö Íslendingar í hópi um 6.000 manna er boðað hafði hópmálsókn gegn stjórnvöldum í Týról. Sakaði hópurinn yfirvöld um að hafa vísvitandi haft hljótt um útbreiðslu faraldursins. 

Að sögn Peters Kolba, lögmanns og formanns austurrísku neytendaverndarsamtakanna, er framangreind skýrsla vonbrigði. „Við skoðuðum skýrsluna á hvítasunnudag og ég get ekki sagt annað en að ég sé vonsvikinn. Raunveruleg skýrsla er ekki meira en 15 blaðsíður, annað inniheldur mjög lítið,“ segir Peter. 

Misnotkun á embætti ekki skoðuð

Segir Peter að lítið hafi verið gert til að rannsaka málið nægilega. „Embætti ríkissaksóknara í Innsbruck hefur staðfest rannsókn á útbreiðslu tilkynningaskyldra sjúkdóma gegn svokölluðum óþekktum gerendum. Beinist rannsóknin einvörðungu að Týról og hefur misnotkun á embætti þar ekki verið skoðuð,“ segir Peter. 

Til að bregðast við þessu hyggjast Netendaverndarsamtökin nú hvetja umrædda einstaklinga til að höfða mál sem einkaaðilar. Nú þegar hafa 1.000 manns skráð sig sem hluta af þessum hópi þar sem farið verður fram á að spilling og yfirhylming stjórnvalda verði rannsökuð.

mbl.is