„Það er engin skammtímalausn við þessu“

Mótmælendur standa til móts við lögreglu í Seattle í Bandaríkjunum.
Mótmælendur standa til móts við lögreglu í Seattle í Bandaríkjunum. AFP

„Ástandið er mjög eldfimt og þessi viðbrögð forsetans gera ekkert til að slá á mótmælin. Í stað þess að rétta út sáttarhönd og sýna einhvern vilja til þess að koma til móts við kröfur mótmælenda, sem eru auðvitað að mótmæla lögregluofbeldi, og ekki bara drápinu á George Floyd, heldur ítrekuðum drápum á svörtu fólki, mætir hann þessu með hörku.“

Þetta segir Silja Bára Ómarsdóttir, dós­ent við stjórn­mála­fræðideild Há­skóla Íslands sem sérhæfir sig í málefnum Bandaríkjanna, um yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna mótmælaöldunnar sem þar geisar.

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir.

Í ávarpi sínu, því fyrsta eftir að mótmæli brutust út í kjölfar drápsins á George Floyd í haldi lögreglu, sagðist Trump ætla að beita hernum til að binda enda á óeirðirnar. Silja Bára segir viðbrögð forsetans sýna að hann hafi engan skilning á aðstæðum þeirra sem gripið hafi til mótmæla. Vissulega sé hægt að berja niður ofbeldið, en að þannig sé ekki hægt að skapa frið, því honum væri ekkert réttlæti til grundvallar. 

Ekki hlutverk hersins að ráðast gegn eigin borgurum

„Það er ekki hlutverk herafla að ráðast gegn eigin borgurum og þetta er ekki í samræmi við stjórnarvenjur Bandaríkjanna,“ segir Silja Bára. Hins vegar sé í bandarískum lögum ákvæði sem heimilar alríkinu að grípa inn í uppreisnir gegn ríkisstjórum og ríkisþingum. Lögin voru sett 1807 en þeim sett frekari skorður 1878 í kjölfar borgarastyrjaldarinnar, en samkvæmt lögunum má forseti senda her til aðstoðar ríkisstjórnvöldum óski þau eftir því vegna uppreisnar sem þau ráði ekki við.

„Þetta er enn sem komið er ekki uppreisn gegn stjórnvöldum heldur mótmæli á götum úti og það er ekki verið að reyna að taka völdin af ríkisstjórum eða -þingum. Það er lína þarna sem hann [Trump] er við það að fara yfir, en hann fer ekki yfir hana fyrr en hann sendir inn herlið í óþökk ríkisstjóra,“ segir Silja Bára.

Silja Bára segir viðbrögð forsetans sýna að hann hafi engan …
Silja Bára segir viðbrögð forsetans sýna að hann hafi engan skilning á aðstæðum þeirra sem gripið hafi til mótmæla. AFP

Annað sem veldur henni áhyggjum er skortur á aðhaldi þingsins undanfarin ár, en að repúblikanar hafi stutt Trump í einu og öllu, jafnvel þegar athafnir hans hafi gengið gegn því sem flokkurinn hefur staðið fyrir og jafnvel lofað í kosningum. Hins vegar þurfi að hafa í huga að Trump hafi áður sagst ætla að gera hluti sem hann geri svo ekki.

„Hann hefur tilhneigingu til að hlaupa upp til handa og fóta, hann grípur ofboðslega sterkt til orða og notar orðalag sem fólki bregður við, en svo fylgir hann því ekki alltaf eftir. Þessi yfirlýsing er engu að síður alveg svakaleg sérstaklega í kjölfar fundar sem hann átti með ríkisstjórunum þar sem hann krefur þá um að yfirbuga mótmælendur, að beita valdi, þegar þeir vilja margir frekar beita samtölum og fara þessa mýkri leið í löggæslu sem þykir skilvirkari og skapar allavega  samfélag sem byggir á trausti en ekki á valdi.“

Silja Bára segir ljóst að engin skammtímalausn sé við vandamálinu. „Það sem þarf til að koma til móts við þetta er að sýna vilja til að sækja til saka og halda fólki ábyrgu fyrir þessum brotum, en líka vilji til þess að gera einhverjar kerfislegar breytingar,“ segir Silja Bára. Ástandið nú sé ekki ósvipað því sem var á sjöunda áratug síðustu aldar þegar svartir börðust fyrir réttindum sínum og mannréttindalöggjöfin var sett í kjölfarið.

„Þangað til fyrir skemmstu hefði maður horft þangað og sagt að ástandið hafi verið verra þá en það er núna, en nú getur maður farið að draga það í efa. Þá voru lögð fram frumvörp, ekki bara um borgaraleg réttindi sem áttu að styrkja stöðu svartra, heldur líka hlutir eins og löggjöf um öruggt aðgengi að húsnæði, sem er skýrt merki um vilja til þess að gera samfélagslegar breytingar og það vantar ofboðslega mikið núna,“ segir Silja Bára, en að meðal ástæðna fyrir ítrekuðum brotum gegn svörtum séu samfélagsleg vandamál í samfélögum þar sem svartir séu í meirihluta eða fjölmennir. Þar skorti gjarnan félagslega þjónustu, aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu o.s.frv.

Setur spurningarmerki við réttlátar kosningar

„Löggjafinn þarf að bregðast við með sýnilegum aðgerðum. Það er engin skammtímalausn við þessu. Það þarf að vera samtal einhvers konar fyrirheit um langtímabreytingar. Þetta er ekkert sem skánar á morgun,“ segir Silja Bára. Jafnvel sé ástæða til þess að setja spurningarmerki við hvort forsetakosningar geti farið fram á réttlátum forsendum eins og ástandið sé núna.

„Það sem er svolítið ógnvekjandi ef það á að beita hervaldi, aðallega gegn svörtum, mun fólk þá treysta sér til þess að mæta á kjörstað? Það þarf að ná að stilla til friðar, ekki koma á stöðugleika með aga eða valdi til að kosningarnar geti farið fram á réttlátum forsendum. Það er eitthvað sem maður setur spurningarmerki við að geti gerst núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert