Búið að skima alla íbúa Wuhan

Búið er að prófa alla íbúa borgarinnar.
Búið er að prófa alla íbúa borgarinnar. Xinhua

Búið er að ljúka veiruskimun á öllum íbúum kínverska héraðsins Hubei í Kína. Alls eru íbúarnir rétt tæplega tíu milljónir talsins, en meðal borga héraðsins er Wuhan. Fregnirnar voru staðfestar á blaðamannafundi sem haldinn var í höfuðborg héraðsins, Lu Zuxun, í gær. 

Á fundinum kom fram að prófanir hefðu farið fram frá 14. maí til 1. júní sl. Nákvæmur fjöldi prófana var 9.899.828, en af framangreindum fjölda reyndust 300 manns bera kórónuveiruna. Voru umræddir einstaklingar þó einkennalausir þrátt fyrir að hafa reynst smitaðir af veirunni. 

Til að tryggja að allir yrðu prófaðir var gengið milli heimila fólks sem ekki komst í skimun. Alls tóku um 50 þúsund heilbrigðisstarfsmenn þátt í verkefninu en auk þeirra komu nær 280 þúsund íbúar borgarinnar að átakinu. Þegar best lét var alls hægt að skima um eina milljón íbúa daglega.

18 milljarða króna kostnaður

Stjórnvöld í Wuhan stóðu að baki prófununum og féll allur kostnaður á þau. Talið er að heildarkostnaður hafi hlaupið á um 18 milljörðum íslenskra króna. Var þetta gert til að færa líf íbúa Wuhan-borgar nær eðlilegu horfi. 

„Eftir að útgöngubanni var aflétt 8. apríl og prófunum er nú lokið færist lífið nær eðlilegu horfi. Fólkið í Wuhan hefur fært alveg gríðarlegar fórnir, en þessar niðurstöður sýna okkur að hægt er að horfa fram á veginn,“ var haft eftir aðstoðarborgarstjóra Wuhan, Hu Yabo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert