Snapchat hættir að kynna efni Trumps

AFP

Samfélagsmiðillinn Snapchat tilkynnti í dag að miðillinn væri í bili hættur að kynna efni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á miðlinum vegna umdeildra ummæla sem hann lét falla um aðgerðir gegn mótmælendum í Bandaríkjunum. CNN greinir frá þessu.

Snapchat-reikningur Trump er reglulega í sviðsljósinu á uppgötvunarvettvangi (e. discover) miðilsins. Þar er bent á efni frá frægu fólki og fréttastofum. 

„Eins og er erum við ekki að kynna efni frá forsetanum á uppgötvunarvettvangnum og munum ekki hefja upp raddir sem hvetja til kynþáttaofbeldis og óréttlætis þar,“ sagði Rachel Racusen, talsmaður Snap, móðurfélags Snapchat, í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag. 

Segir Snapchat beita Trump þöggun

„Kynþáttaofbeldi og óréttlæti rúmast ekki innan okkar samfélags og við stöndum með öllum sem sækjast eftir friði, ást, jafnrétti og réttlæti í Ameríku,“ sagði Racusen. 

Í yfirlýsingu sem Brad Parscale, kosningastjóri Trumps, sendi blaðamönnum sakar hann Snapchat um að reyna að hafa áhrif á komandi forsetakosningar og þagga niður í Trump. 

Racusen sagði að ákvörðunin hafi verið tekin um helgina eftir að Trump skrifaði færslu á Twitter þar sem hann hótaði því að mótmælendum yrði mætt með „illustu hundum og óheillavænlegustu vopnum“ sem hann hefði séð. 

Bandaríkjamenn hafa safnast saman síðustu daga til að mótmæla lögregluofbeldi gegn svörtum Bandaríkjamönnum eftir að George Floyd var drepinn af lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert