Tegnell: Hefðum farið milliveginn

Frá Stokkhólmi um helgina en veðrið lék við íbúa Svíþjóðar.
Frá Stokkhólmi um helgina en veðrið lék við íbúa Svíþjóðar. AFP

Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, segir að ýmislegt hafi mátt betur fara í þeim aðgerðum sem farið var í til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi en hann efast um að hertar reglur hefðu breytt einhverju.

Rætt var við Tegnell í sænska útvarpinu í morgun en hann hefur sætt harðri gagnrýni vegna þess mikla fjölda sem hefur látist þar í landi af völdum veirunnar.

Alls hafa verið staðfest 38.589 smit í Svíþjóð og af þeim eru 4.468 látnir. Þetta eru miklu fleiri en hafa látist annars staðar á Norðurlöndunum. Tegnell segir að þetta séu allt of margir en í Svíþjóð var ekki gripið til jafn harðra aðgerða og víðast hvar annars staðar í Evrópu.

Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell.
Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell. AFP

„Ef við stæðum frammi fyrir sama sjúkdómi með allar þær upplýsingar sem við höfum yfir að ráða í dag held ég að við myndum fara milliveginn á milli þess sem Svíþjóð og önnur lönd í heiminum hafa gert,“ sagði Tegnell í viðtali við sænska útvarpið í morgun. 

Hann ítrekar að enn sé óljóst hverju það hefði breytt ef samkomubannið hefði verið strangara. „Það væri gott að vita það með meiri nákvæmni hverju ætti að loka til að koma í veg fyrir dreifingu sýkingarinnar,“ sagði Tegnell. 

Grunn- og leikskólum var ekki lokað í Svíþjóð, ekkert frekar en á Íslandi. Eins hefur kaffihúsum, börum og veitingastöðum verið haldið opnum sem og flestum fyrirtækjum allan tímann. Fólk var hvatt til þess að vinna heima og takmarka snertingar og virða fjarlægðarviðmið sem og þvo hendur vel og reglulega. Ætlast hefur verið til þess að fólk fylgi þessum ráðleggingum en þær eru ekki bindandi. 

Aftur á móti hefur ekki mátt fara í heimsóknir á hjúkrunarheimili og samkomubannið miðast við 50 manns. 

Viðtalið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert