„Tek ekki við peningum frá „niggurum““

Victor Hackett, lögfræðingur og prófessor í fjármálum við Drexel-háskólann í …
Victor Hackett, lögfræðingur og prófessor í fjármálum við Drexel-háskólann í Pennsylvania, var kallaður „niggari“ í barnaskóla og fyllist enn þann dag í dag ótta þegar hann sér lögreglubíl á heimaslóðum sínum í New Jersey. Hann telur íslenska þjóðarsjál gjörólíka þeirri bandarísku þar sem Íslendingar hafi aldrei upplifað að níðast á öðrum þjóðum sem nýlenduherrar. Hackett ræddi við mbl.is í kvöld um efni sem ekki voru öll þægileg. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er í rauninni frá Michigan, Texas og Las Vegas, ég veit ekki hvar ég á að byrja,“ segir Victor Hackett, fertugur lögfræðingur og prófessor í fjármálafræðum fasteignasala, eða real estate finances, við Drexel-háskólann í Pennsylvania í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is í kvöld. Faðir hans var að auki yfirmaður í bandaríska flughernum og bjó fjölskyldan um tíma á Ramstein-herflugstöðinni í Þýskalandi.

Fyrir utan að vera lögfræðingur og prófessor er Hackett kolsvartur á litinn, blökkumaður eða afríkanskur ameríkani, eins og hans kynstofn heitir formlega í Bandaríkjum Norður-Ameríku, landi sem tekur ferðamönnum opnun örmum þrátt fyrir að hvítir lögregluþjónar þar á bæ séu nánast þekktastir af öllu í heimsfréttunum fyrir að myrða svart fólk, síðast á mánudaginn fyrir rúmri viku. Hvaðan sprettur þetta hatur eiginlega?

„Ég ólst upp við þetta alla tíð, ég er fæddur árið 1980 og er því fertugur,“ segir Hackett frá. „Ég var tólf ára þegar lögregluþjónarnir í Los Angeles, sem lömdu Rodney King í klessu, voru sýknaðir. Sá atburður hafði gríðarlega sterk áhrif á mig og kannski var það í raun þá sem ég ákvað að leggja fyrir mig laganám og síðan hef ég reyndar í þrígang þurft að verja sjálfan mig í réttarsal eftir að lögregla hefur stöðvað mig fyrir engar sakir í umferðinni aðrar en þær að ég er svartur,“ segir Hackett sem er ákaflega viðræðugóður og skemmtinn maður í þessu spjalli sem fer fram um símtalsmöguleika Messenger milli Óslóar og New Jersey í Bandaríkjunum.

Tók ekki við peningum frá „niggurum“

„Ég man sérstaklega eftir því þegar steininn tók úr í þessum kynþáttahatursmálum þegar ég var í barnaskóla, fimm eða sex ára, sennilega 1985 eða þar um bil. Þá var hvít skólasystir mín að selja ís í frístundum og ég stakk upp á því að aðstoða hana, ég gæti þá selt félögum mínum ís og hún fengi þá stærstan hluta míns ágóða. Þessi stúlka leit þá á mig eins og útskryppi af fávitahæli og sagði við mig „ég tek ekki við peningum frá niggurum“ [I don‘t take money from niggers, vitnar Hackett orðrétt].“

Þarna segir Hackett að eitthvað hafi brostið innra með honum, honum hafi skilist að nokkrar þjóðir, misréttháar, byggðu Bandaríki Norður-Ameríku, land hinna frjálsu og hugrökku sem lengi var vinsælt slagorð nýlenduveldisins í vestri. En hvað veldur þessu hatri? Hvaðan sprettur illskan?

Victor Hackett og Norðlendingurinn Tinna Dögg Gunnarsdóttir reka fjármálaráðgjafarfyrirtækið OpZOneNation …
Victor Hackett og Norðlendingurinn Tinna Dögg Gunnarsdóttir reka fjármálaráðgjafarfyrirtækið OpZOneNation í New Jersey í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þið Íslendingar eruð af allt annarri hlaupvídd,“ segir Hackett sem er kvæntur íslenskri konu, Sauðkrækingnum Tinnu Dögg Gunnarsdóttur, en saman reka þau hjónin fjárfestingaráðgjafafyrirtækið OpZOneNation en Tinna og Hackett búa yfir samanlagðri rúmlega 30 ára reynslu sem fjárfestar.

„Þið hafið aldrei verið nýlenduherrar, þar með hafið þið aldrei kúgað aðrar þjóðir, sú þjóð sem nú byggir Bandaríki Norður-Ameríku er sérfróð um kúgun,“ segir Hackett. „Bandaríkjamenn eiga sér tvær erfðasyndir, fyrst ofbeldið gagnvart frumbyggjum landsins, indíánunum, og svo þrælahaldið. Forfeður mínir og -mæður unnu á bómullarökrum og var bara sagt að halda kjafti, þau skiptu ekki máli, þau voru ekki fólk, þau voru bara tæki,“ segir Hackett.

„Þið eruð ekki í þessu rugli“

Hann segir hatrið sem nú brýst út í kjölfar andláts George Floyds ekki nýtt af nálinni. „Þetta hefur alltaf fylgt þessari þjóð. Þegar ég sé lögreglubíl í umferðinni fyllist ég beyg vegna þess að ég veit að hvítir lögregluþjónar munu, flestir hverjir, ekki skirrast við að stöðva mig og heimta alla pappíra frá mér eingöngu vegna þess að ég er blökkumaður og þar með stimplaður glæpamaður.

Við ætlum að flytja til Íslands, þið eruð ekki í þessu rugli sem við þurfum að búa við. Ég vil að börnin mín gangi í framhaldsskóla á Íslandi, ég óska þess eins að þau fái að alast upp hjá þjóð sem aldrei hefur verið nýlenduherrar því það er engum gott. Ég vil ekki að börnunum mínum sé sagt að ekki sé tekið við peningunum þeirra vegna þess að þau eru „niggarar“,“ eru lokaorð Victor Hackett, bandarísks háskólaprófessors og lögfræðings sem hefur fengið sig fullsaddan af frjálsræðishetjunum góðu.

Munu þar ekki allir sáttir hið þriðja sumar. Mótmælendur í …
Munu þar ekki allir sáttir hið þriðja sumar. Mótmælendur í Washington sveifla skiltum sínum í dag. Bandaríkjamönnum gremst ofbeldi hvítra lögregluþjóna í garð svartra þegna landsins verulega. AFP
mbl.is