Sleppt úr haldi og martröðinni lokið

Íranski vísindamaðurinn Sirous Asgari í Tehran í gær eftir að …
Íranski vísindamaðurinn Sirous Asgari í Tehran í gær eftir að hafa losnað úr haldi Bandaríkjamanna. AFP

Bandaríska hermanninum fyrrverandi Michael White hefur verið sleppt úr haldi og hann yfirgefið Íran tæpum tveimur árum eftir að hann var handtekinn.

Móðir hans greindi frá þessu í dag. Áður höfðu Bandaríkjamenn sleppt írönskum vísindamanni úr haldi.

„Það er gott að geta tilkynnt að martröðinni er lokið og sonur minn er á leiðinni heim, heill á húfi,“ sagði Joanne White í yfirlýsingu.

„Okkur skilst að það sé mikill áhugi á því að segja sögu Michael. Með tímanum mun hann segja hana sjálfur, á sinn hátt,“ bætti hún við, að sögn CNN.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir ánægju sinni með lausn White í dag:

Ayatollah Ali Khamenei flytur sjónvarpsávarp.
Ayatollah Ali Khamenei flytur sjónvarpsávarp. AFP

Dæmdur fyrir að móðga Khamenei

White, sem hafði átt við undirliggjandi veikindi að stríða, var fluttur yfir til Sviss í mars síðastliðnum vegna veikinda. Síðar í mánuðinum var hann lagður inn á sjúkrahús með einkenni tengd kórónuveirunni en flaug svo aftur til Írans.

White var í þrettán ár í bandaríska sjóhernum en var handtekinn í júlí 2018 í borginni Mashhad eftir að hafa heimsótt konu sem hann er sagður hafa kynnst á netinu.

Hann var dæmdur í að minnsta kosti 10 ára fangelsi fyrir að móðga Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Írans, og fyrir að hafa sett færslur á samfélagsmiðla undir dulnefni þar sem hann gagnrýndi írönsk stjórnvöld í Íran.

Fólk á gangi í Tehran, höfuðborg Írans.
Fólk á gangi í Tehran, höfuðborg Írans. AFP

Asgari sleppt í gær

Íranski vísindamaðurinn Cyrus Asgari, 59 ára, sneri aftur heim til Írans í gær eftir að hafa verið í fangelsi í þrjú ár í Bandaríkjunum sakaður um njósnir.  

Þegar Asgari var sleppt lausum sögðu bandarísk stjórnvöld að sú aðgerð tengdist ekki fangaskiptum. Efasemdir um það hafa vaknað eftir að Michael White var leystur úr haldi.

Fangaskipti hafa áður átt sér stað á milli Bandaríkjanna og Írans. Jason Rezaian, blaðamaður Washington Post, var sleppt úr haldi í Íran árið 2016 í staðinn fyrir sjö Írana sem voru í haldi í Bandaríkjunum.

Í desember síðastliðnum leystu Íranar Xiyue Wang, bandarískan fræðimann, úr haldi og í staðinn slepptu Bandaríkjamenn vísindamanninum Massoud Soleimani úr fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert