Útgöngubann virt að vettugi

Lögreglan í New York handtók tugi mótmælenda í gærkvöldi en margir virtu útgöngubann að vettugi. Útgöngubannið tók gildi klukkan 20 að staðartíma en á þeim tíma voru fjölmenn mótmæli bæði í Brooklyn sem og á Manhattan. Svipað ástand var í öðrum stórborgum Bandaríkjanna. 

Mótmælendur fögnuðu breyttri ákæru á hendur lögreglumanninum sem drap George Floyd í Minneapolis í síðustu viku og að gefin hafi verið út ákæra á hendur þremur lögreglumönnum sem fylgdust með þegar Derek Chauvin hélt hné sínu á hálsi Floyd í tæpar 9 mínútur. 

Meðal þeirra sem fagna ákvörðun ríkissaksóknara í Minneasota er Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Hann hvetur þjóðina til þss að nýta sér stöðuna sem nú er uppi og koma á löngu tímabærum breytingum í þjóðfélaginu.

Þúsundir tóku þátt í mótmælum í höfuðborginni og Los Angeles en borgarstjórinn í LA, Eric Garcetti, talar um að breyta áherslum í fjárlögum borgarinnar. Að setja 250 milljónir Bandaríkjadala í verkefni sem tengjast heilbrigðisþjónustu og menntamálum svarta íbúa í borginni.

George Floyd var með kórónuveiruna er hann lést 25. maí en veiran átti ekki þátt í dauða hans að því er fram kemur í réttarmeinarannsókn Hennepin-sýslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert