Át „sprengjuávöxt“ og drapst

Lögreglumenn og fleira fólk við bakka árinnar Velliyar í Palakkad, …
Lögreglumenn og fleira fólk við bakka árinnar Velliyar í Palakkad, sem er hérað Kerala, fylgist með þegar fíllinn sem át ávöxtinn með sprengiefninu er sóttur. AFP

Fíll drapst á Indlandi eftir að hafa étið ávöxt sem hafði verið fylltur af sprengiefni.

Gildrur sem þessar hafa verið gagnrýndar harðlega en þær eru útbúnar til að vernda uppskeru og heimili fyrir villtum dýrum.

Umræddur fíll, sem átti von á litlum fílsunga, fór inn í þorp skammt frá þjóðgarðinum Silent Valley í ríkinu Kerala síðastliðinn miðvikudag og át ávöxtinn, sem talið er að hafi verið ananas, sem sprakk með fyrrgreindum afleiðingum.

„Við erum að rannsaka sprengiefnið og matinn sem hún fékk,“ sagði Surendra Kumar, yfirmaður í Kerala við AFP-fréttastofuna og bætti við að lögreglan aðstoði við rannsókn málsins. 

Viðbrögð á Facebook voru mikil eftir að greint var frá því sem gerðist og höfðu tæplega 10 þúsund manns brugðist við færslunni á einhvern hátt. „Hún skaðaði ekki neina manneskju, jafnvel þegar hún hljóp í sársauka sínum um götur þorpsins,“ skrifaði Mohan Krishnan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert