Gleyma ekki „slátrun“ á Torgi hins himneska friðar

Lögreglumaður skammt frá Torgi hins himneska friðar.
Lögreglumaður skammt frá Torgi hins himneska friðar. AFP

Hvíta húsið segir að „slátrun“ Kínverja á mótmælendum á Torgi hins himneska friðar árið 1989 hafi ekki gleymst og eru þeir hvattir til að greina frá nákvæmum fjölda þeirra sem létust.

„Slátrun kínverska kommúnistaflokksins á óvopnuðum kínverskum ríkisborgurum var harmleikur sem mun ekki gleymast,“ sagði Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Donalds Trump Bandaríkjaforseta í yfirlýsingu.

„Bandaríkin skora á Kína að heiðra minningu þeirra sem létust og gefa upp hversu margir voru drepnir, handteknir eða er saknað í tengslum við atburðina í kringum fjöldamorðið á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989.“

Kayleigh McEnany á blaðamannafundi.
Kayleigh McEnany á blaðamannafundi. AFP

Ríkisstjórn Kína hefur aldrei gefið upp heildartölur yfir þá sem létust en fræðimenn, vitni og mannréttindahópar telja fjöldann vera á bilinu nokkur hundruð til rúmlega eitt þúsund manns.

Bandaríkin senda á hverju ári frá sér svipaða yfirlýsingu vegna atburðarins á Torgi hins himneska friðar og krefjast þess að kínversk stjórnvöld segi frá hversu margir létust. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hitti í gær fólk sem komst lífs af á torginu, þar á meðal Wang Dan sem var einn helsti leiðtogi mótmælenda úr röðum stúdenta á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert