Þúsundir mótmæltu í Ósló

Talið er að 6.000 manns hafi sameinast utan við byggingu …
Talið er að 6.000 manns hafi sameinast utan við byggingu norska Stórþingsins í Ósló í dag til að mótmæla vígi George Floyds í Minneapolis í síðustu viku. Allt fór þó fram með friði og spekt þrátt fyrir nokkrar handtökur en einnig var mótmælt í Bergen og Kristiansand. Skjáskot/Kvöldfréttatími NRK

Talið er að allt að 6.000 manns hafi komið saman utan við byggingu Stórþingsins í Ósló í dag til að mótmæla örlögum George Floyds í Minneapolis en lítið telja margir hafa lagst þar fyrir góðan dreng er þrælar skyldu að bana verða, eins og Ingólfur Arnarson mælti um Hjörleif fóstbróður sinn forðum.

Þrátt fyrir að mótmælendur gerðu vopnabrak og gný mikinn fóru mótmælin friðsamlega fram. Viðstaddir krupu þegjandi á kné í átta mínútur og 46 sekúndur, sama tíma og líf Floyds fjaraði út í höndum lögreglunnar í síðustu viku, og voru margir meira en reiðubúnir að deila skoðunum sínum með norska ríkisútvarpinu NRK.

„Okkur er mikilvægt að sýna að við fyrirlítum þetta [framkomu lögreglunnar] og þetta er ófyrirgefanlegt, hvað sem kórónufaraldrinum líður,“ sagði Lise Aanes mótmælandi við NRK í dag og vísaði þar til þess að reglan um fjarlægð milli fólks var ekki í heiðri haldin við Stórþingið.

„Við eigum að mótmæla þessu hér heima í Noregi líka, kynþáttahatur er daglegur raunveruleiki margra hér í landinu,“ sagði Andrea Gamst.

Gleymir þessu aldrei

Á spjöldum viðstaddra mátti lesa vígorð á borð við „Líf svartra telja“, „Sittu ekki þegjandi“, „Við krefjumst réttlætis“ og „Við getum ekki andað“, lokaorð George Floyds sem bergmálað hafa um gervalla heimsbyggðina síðustu vikuna.

Rometris Wright er bandarísk kona sem hefur búið í Noregi í tíu ár. „Aldrei hefði ég trúað því að nokkuð gæti snert mig eins djúpt og þetta. Allt fólkið sem er hérna, hrópar nafnið hans og hrópar „án réttlætis verður enginn friður“, því mun ég aldrei gleyma,“ sagði Wright við NRK.

Norska lögreglan leggst enn fremur á árarnar með mótmælendum. „Lögreglan og samfélagið hérna virðir tjáningarfrelsið, við í lögreglunni höfum ekkert á móti því að fólk komi saman til friðsamlegra mótmæla,“ segir Svein Arild Jørundland, aðgerðastjóri lögreglunnar í Ósló, við NRK í dag.

Vígi Floyds hefur enn fremur verið andæft í Bergen, Kristiansand og fleiri norskum borgum í dag en öll mótmæli í landinu hafa farið fram með friði og spekt. Um tugur ungmenna var handtekinn í Ósló fyrir að skjóta upp flugeldum við mótmælin í dag auk þess sem maður var handtekinn fyrir að veitast að mótmælendum í Ósló í dag en lögregla hafði áður bannað honum að halda sig í miðborginni vegna óspekta og er þar um einn kantmanna lífsins að ræða að sögn André Kråkenes, varðstjóra lögreglunnar í Ósló.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert