Íhugar að fara sömu leið og Trump

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Jair Bol­son­aro, forseti Brasilíu, íhugar nú að feta í fótspor Donald Trump Bandaríkjaforseta og draga Brasilíu úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Hann sagði að hugmyndafræðilegur ágreiningur væri á milli stofnunarinnar og Brasilíu vegna kórónuveirunnar.

„Bandaríkin yfirgáfu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og við erum að hugsa málið,“ sagði Bolsonaro í gærkvöld.

„Annað hvort hættir stofnunin að stjórnast af pólitík eða við yfirgefum hana líka,“ bætti hann við.

Stofnunin hefur varað við því að höftum til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar í Brasilíu yrði aflétt of snemma.

Rúmlega 30 þúsund greindust með veiruna í Brasilíu í gær og 1.008 létust af völdum hennar. Alls eru tilfellin orðin 646.006 í landinu og 35.047 hafa látið lífið.

mbl.is