Opið en engir ferðamenn

Söfn og sögulegir staðir í Frakklandi hafa verið opnaðir að nýju, þar á meðal Versalahöll. Afar fáir voru þar á ferli í dag enda engir ferðamenn í Frakklandi frekar en annars staðar.

Þeir sem lögðu leið sína til Versala í dag voru aftur á móti alsælir enda þægilegt að skoða höllina og garðana í rólegheitum án þess að þurfa að standa í biðröð. 

Eftir á að koma í ljós hvaða áhrif kórónuveiran hefur á rekstur svæðisins enda hafa Versalir líkt og aðrir vinsælir staðir meðal ferðamanna orðið fyrir þungu höggi. Alls keyptu átta milljónir gesta aðgangsmiða í höllina í fyrra og fjórir af hverjum fimm voru erlendir gestir.

mbl.is