Boða breytt skipulag lögreglunnar í Minneapolis

AFP

Meirihluti borgarstjórnar Minneapolis leggur til að núverandi skipulag lögreglunnar í borgarinni verði leyst upp.

Heita níu borgarfulltrúar að búa til nýtt kerfi þar sem öryggi almennings er haft að leiðarljósi. Í borg þar sem lögreglan hefur lengi legið undir ámæli fyrir kynþáttahatur, að því er segir í frétt New York Times af ákvörðuninni sem kynnt var í kvöld. 

Segja borgarráðsfulltrúarnir að núverandi kerfi sé ekki viðbjargandi og eina leiðin sé að loka deildinni eins og hún er nú. 

Á vef New York Times er haft eftir framkvæmdastjóra Black Vision, Kandace Montgomery, að það hefði ekki átt að kosta svo mörg mannslíf að komast á þennan stað. „Við erum öruggari án vopnaðra óábyrgra löggæslumanna sem njóta stuðnings ríkisins við að elta uppi svart fólk.“

Borgarráðið heitir því að í nýja skipulaginu felist samvinna við samfélagið við að gera breytingar og að breytingarnar muni taka gildi á næstu vikum bæði hvað varðar stefnu og fjármagn án þess að það liggi nákvæmlega fyrir í hverju breytingarnar felast.

mbl.is