Telja að bréfritari sé mjög fær í norsku

Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust 31. október 2018. Lögregla telur nær …
Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust 31. október 2018. Lögregla telur nær útilokað að hún sé á lífi og nú liggur maðurinn hennar undir grun. AFP

Sá sem ritaði hótunarbréfið sem skilið var eftir á heimili Hagen-hjónanna norsku eftir hvarf eiginkonunnar Anne-Elisabeth Hagen, skrifaði bréfið viljandi á slæmri norsku. Þetta er mat tveggja sérfræðinga sem norska blaðið Verdens Gang hefur fengið til að rýna í hótunarbéfið, sem Tom Hagen, eiginmaður Anne-Elisabeth, segir að sér hafi borist eftir að eiginkonan hvarf af heimili þeirra hjóna árið 2018. Tom Hagen liggur nú undir grun um að hafa sviðsett mannránið.

Hin danska Tanya Karoli Christensen, lektor í málvísindum við Kaupmannahafnarháskóla, segir bréfið kuldalegt og laust við tilfinningar. Það innihaldi aðeins upplýsingar um hvað Tom Hagen eigi að gera. Hún segir ljóst að bréfritari sé fær í norsku en að bréfið sé vísvitandi bæði ensku- og sænskuskotið líkt og viðkomandi vilji sýna fram á að hann sé ekki norskur. Tekur hún sem dæmi að orðin „vill“ og „till“ séu skrifuð með tveimur l-um líkt og í sænsku, en hins vegar sé orðið „skal“ skrifað með l-i líkt og í norsku (en í sænsku hefur l-ið fallið brott og skrifa Svíar nú á dögum Jag ska).

Í sama streng tekur Odd Egil Johnsen, sem hefur kennt útlendingum norsku í tuttugu ár við Háskólann í Tromsö. „Það sem er mest sláandi eru allar einföldu, en sjaldgæfu, villurnar sem sendandinn gerir á sama tíma og hann fer rétt með flóknari orðatiltæki sem sum hver eru þess eðlis að nær eingöngu sá sem hefur norsku að móðurmáli myndi nota. Það er erfitt að sjá fyrir sér að einhver geti verið svo slakur en á sama tíma góður í norsku,“ segir  Johnsen. Hann nefnir meðal annars að bréfritari átti sig á að atviksorð í norsku komi á undan sagnorði í aukasetningum, þótt því sé öfugt farið í aðalsetningum. Þannig segir í bréfnu „tilfelle en av dem ikke kan ta hele order“ og er orðið ikke á undan sögninni kan.

Þessi orðaröð, sem einnig er að finna í sænsku og dönsku en ekki íslensku, hefur einmitt vafist fyrir íslenskum nemendum í dönskutímum í áraraðir enda eitt fárra tilfella þar sem orðaröð í íslensku er ólík grannmálunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert