Yfirmaður greinadeildar NYT hættir

AFP

Yfirmaður greinadeildar New York Times hefur sagt upp eftir harðvítugar deilur við marga starfsmenn dagblaðsins og gagnrými í kjölfar þess að hafa birt grein eftir bandarískan öldungadeildarþingmann sem hvatti til þess að hernum yrði beitt gegn mótmælendum á landsvísu.

James Bennet, sem hefur verið yfirmaður leiðaradeildar NYT frá því í maí 2016, mætti harðri andspyrnu þegar hann varði skoðanapistilinn sem bar fyrirsögnina: Sendið herinn á vettvang eftir þingmanni repúblikana, Tom Cotton.

Bennet varði birtingu greinarinnar í upphafi og sagði hana dæmi um hugmyndafræðilegan fjölbreytileika dagblaðsins en ummælin féllu í grýttan jarðveg, bæði innan blaðs sem utan.

Las ekki greinina

Um 800 starfsmenn Times skrifuðu undir mótmæliskjal þar sem birtingu greinarinnar var mótmælt og margir þeirra settu færslu á Twitter þar sem þeir gagnrýndu ákvörðunina. 

Útgefandinn A.G. Sulzberger varði einnig ákvörðunina í upphafi en síðar sagði hann að greinin stæðist ekki kröfur NYT.

Bennet viðurkenndi jafnframt að hafa ekki lesið greinina yfir áður en hún birtist. Ekkert er minnst á þetta mál í frétt NYT af uppsögn Bennet en þar kemur fram að Katie Kingsbury, sem hefur starfað hjá Times frá 2017, muni vera starfandi stjórnandi deildarinnar fram yfir kosningar í nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina