Sakar Andrés Bretaprins um blekkingaleik

Andrés Bretaprins hefur verið samvinnuþýður og að minnsta kosti þrívegis …
Andrés Bretaprins hefur verið samvinnuþýður og að minnsta kosti þrívegis boðist til að aðstoða bandarísk stjórnvöld við rannsókn sína á Jeffrey Epstein segja lögfræðingar hans. AFP

Saksóknari í New York-ríki hefur sakað Andrés Bretaprins um að reyna að blekkja almenning og halda því enn og aftur fram að hann sé reiðubúinn að veita aðstoð við rannsókn á meintu mansali barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

Lögfræðingar Andrésar Bretaprins, hertogans af Jórvík, sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í kvöld þar sem því var alfarið hafnað að prinsinn hefði neitað því að svara spurningum saksóknara varðandi tengsl hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein. BBC greinir frá þessu.

Fjölmiðlar greindu frá því fyrr í dag að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefði formlega óskað eftir aðstoð breskra yfirvalda við að yfirheyra Andrés. Hann hefði hingað til neitað að svara spurningum saksóknara vegna málsins.

Bandarísk yfirvöld vilji athygli fremur en aðstoð

Í yfirlýsingu frá lögfræðiteymi hans segir að prinsinn hafi að minnsta kosti þrívegis boðist til að aðstoða bandarísk yfirvöld við rannsóknina. Lögfræðingar hans saka fulltrúa bandaríska dómsmálaráðuneytisins um að sækjast frekar eftir athygli en samstarfi við prinsinn.

„Því miður þá brást bandaríska dómsmálaráðuneytið við fyrstu tveimur boðum um aðstoð með því að brjóta gegn eigin reglum um trúnað og halda því fram að hertoginn hefði neitað að bjóða fram aðstoð sína. Með því er líklega frekar verið að leita eftir athygli en samstarfi,“ segir í yfirlýsingunni.

Geoffrey Berman, alríkissaksóknari í suðurumdæmi New York-ríkis, var ekki lengi að bregðast við yfirlýsingunni með sinni eigin.

„Í dag reyndi Andrés Bretaprins enn og aftur að draga upp mynd af sér sem viljugum til þess að aðstoða alríkisyfirvöld við yfirstandandi rannsókn á meintu mansali og tengdum glæpum Jeffrey Epstein,“ sagði í yfirlýsingu Berman.

Beiðni bandaríska dómsmálaráðuneytisins byggist á MLA-sáttmálanum milli Bandaríkjanna og Bretlands sem notaður er við rannsókn á sakamálum. Á grundvelli hans geta breskir dómstólar kallað prinsinn til skýrslugjafar, neiti hann að aðstoða bandarísk yfirvöld.

mbl.is