„Við syrgjum ekki George Floyd“

Greg Glassman, upphafsmaður og forstjóri CrossFit, sagðist ekki syrgja George …
Greg Glassman, upphafsmaður og forstjóri CrossFit, sagðist ekki syrgja George Floyd. Ljósmynd/Aðsend

Greg Glassman, forstjóri CrossFit, sagði á fjarfundi með eigendum líkamsræktarstöðva að hvorki hann né nokkur starfsmanna hans syrgi George Floyd. Glassman hefur legið undir ámæli síðustu daga fyrir að gera lítið úr dauða Floyd.

Miðillinn BuzzFeed News greinir frá þessu og birtir upptöku af ummælunum sem féllu á fundinum sem á að hafa farið fram nokkrum klukkustundum áður en Glassman sendi frá sér tíst þar sem hann gerði lítið úr dauða Floyd. Reebok og fleiri styrktaraðilar hafa síðan slitið öllum tengslum við CrossFit.

Glassman notaði sama miðil til að senda frá sér afsökunarbeiðni þar sem hann sagðist hafa gert mistök með orðavali sínu en ekki gerst sekur um rasisma.

Hafi verið morð af yfirlögðu ráði

„Við syrgjum ekki George Floyd. Ég held ekki að nokkur starfsmanna minna geri það,“ heyrist hann segja á upptökunni, sem er klippt til.

Þar segist hann eiga vini innan alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) og að þeir telji að ákærunni á hendur Derek Chauvin, lögreglumanninum sem drap Floyd, verði breytt úr morði af annarri gráðu í morð af fyrstu gráðu, þ.e. morð af yfirlögðu ráði.

Á upptökunni má einnig heyra Glassman ræða kenningar um að skemmtistaðurinn sem Floyd og Chauvin unnu báðir á hafi verið undir rannsókn alríkislögreglunnar í meira en áratug vegna þvættis falsaðra peningaseðla.

Þá ræðir hann viðbrögðin við heimsfaraldri kórónuveiru og segist telja að þau hafi kostað mun fleiri líf en þau hafi bjargað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert