Engström grunaður um morðið

Olof Palme.
Olof Palme. AFP

Stig Engström, einnig þekktur sem Skandia-maðurinn, er grunaður um að hafa drepið forsætisráðherra Svíþjóðar, Olof Palme. En þar sem Engström er látinn verður morðrannsókninni, sem hefur staðið yfir í 34 ár, lokað.

Palme var skot­inn til bana 28. fe­brú­ar 1986 er hann var að koma úr kvik­mynda­húsi með konu sinni, Lisbet, en hann hafði afþakkað öryggisgæslu þetta kvöld. Yfir 10.000 manns hafa verið yf­ir­heyrðir í tengsl­um við rann­sókn­ina á morðinu.

Sá sem hefur stýrt rannsókninni, Krister Petersson, greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun.

Engström starfaði hjá Skandia-tryggingafélaginu skammt frá morðstaðnum. Hann var yfirheyrður sem vitni í málinu snemma í rannsókninni en aðeins nokkur ár eru síðan farið var að gruna hann um að hafa framið morðið. Engström framdi sjálfsvíg árið 2000 og þar sem hann er látinn er ekki hægt að sækja hann til saka fyrir morðið. Því er málinu hér með lokað segir Petersson. 

AFP

Árásarmaðurinn skaut Palme í bakið og flúði af vettvangi. Blæddi Palme, sem var 59 ára að aldri, út á staðnum. Alls hafa 134 játað á sig morðið hingað til en meintur morðingi er ekki meðal þeirra. 

Engström var eins og áður sagði spurður út í málið sem vitni en hann var við vinnu þetta kvöld. Hann breytti ítrekað frásögn sinni og í sænskum fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að hann hafi gert það til þess að fela sannleikann — að hann hafi myrt Palme. Engström var 66 ára að aldri þegar hann lést. 

Ekkja Palme, Lisbet Palme, taldi sig ásamt fleiri sjónarvottum, hafa séð Christer Pettersson, smáglæpamann sem var háður fíkniefnum, á vettvangi ódæðisins. Pettersson lést árið 2004 en hann hafði áður hlotið dóm fyrir að stinga mann til bana með byssusting árið 1970.

Pettersson var sakfelldur í héraðsdómi sumarið 1989 fyrir að skjóta Palme til bana en var sýknaður á efra dómstigi í nóvember sama ár vegna skorts á sönnunargögnum og mistaka við sakbendingu. Sjálfur neitaði Pettersson að hafa verið staddur fyrir utan kvikmyndahúsið Grand kino kvöldið örlagaríka, þar sem mörg vitni sáu hann engu að síður.

Lögreglan var þar með aftur á byrjunarreit og enduðu ótal vísbendingar frá almenningi í sífelldum blindgötum en Krister Petersson hefur stýrt fimm manna rannsóknarteymi sænsku lögreglunnar í málinu frá árinu 2017.

 Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert