Lofa afleiðingum vegna áróðursbæklinga

Nemar við Pyongyang-háskóla lesa ríkisfréttablaðið þar sem áróðursbæklingar frá Suður-Kóreu …
Nemar við Pyongyang-háskóla lesa ríkisfréttablaðið þar sem áróðursbæklingar frá Suður-Kóreu eru fordæmdir. AFP

Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa heitið því að höfðað verði mál gegn tveimur hópum liðhlaupa fyrir að senda áróður gegn stjórnvöldum í Pyongyang, höfuðborg nágranna þeirra í norðri, yfir landamærin.

Norður-Kórea sleit öllum hernaðar- og stjórnmálatengslum við Suður-Kóreu í gær og hafa stjórnvöld þar í landi heitið frekari aðgerðum gegn nágrönnum sínum.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu vinna nú hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að ástandið stigmagnist, en nágrannaþjóðirnar eiga enn í formlegu stríði þrátt fyrir að vopnahlé hafi verið í gildi frá 1953.

Í yfirlýsingu frá yfirvöldum í Seúl segir að áróðursbæklingarnir, sem hópar liðhlaupa frá Norður-Kóreu sendu yfir landamærin með blöðrum og flöskuskeytum, brjóti í bága við sáttmála leiðtoga Suður- og Norður-Kóreu og að lögreglu yrði tilkynnt um málið.

mbl.is