Manshaus hlaut 21 árs dóm

Philip Manshaus hlýðir svipbrigðalaus á dóm sinni í morgun. Miðað …
Philip Manshaus hlýðir svipbrigðalaus á dóm sinni í morgun. Miðað við úrræðið sem hann hlaut, forvaring, gæti hann setið inni til æviloka þar sem framlengja má dóminn í skrefum telji geðfróðir menn hann ekki færan um að taka þátt í samfélagi manna. AFP

Philip Manshaus, sem réðst vopnaður inn í mosku í Bærum, rétt utan við Ósló, í ágúst í fyrra eftir að hafa myrt stjúpsystur sína, hlaut í morgun 21 árs varðveisludóm (n. forvaring) með 14 ára lágmarksafplánun. Varðveisluúrræðið táknar þó að Manshaus gæti setið inni til æviloka og er það sama og Anders Behring Breivik hlaut á sínum tíma.

Fjölskipaður Héraðsdómur Asker og Bærum komst að einróma niðurstöðu um refsinguna sem aldrei þessu vant féll ágætlega í kramið hjá dæmda sem hafði áður lýst því yfir að þessi yrði að öllum líkindum niðurstaðan auk þess sem hann lýsti velþóknun sinni á því að geðrænt sakhæfismat skilaði þeirri niðurstöðu að hann hafi vitað fullvel hvað hann var að gera á verknaðarstundu.

Gekk fram af ásetningi

Manshaus er mikill aðdáandi Brentons Tarrant sem skaut 50 manns til bana og særði minnst 50 aðra í skotárás sinni í tveimur moskum á Nýja-Sjálandi 15. mars í fyrra.

„Rétturinn telur sannað og yfir allan vafa hafið að Manshaus gekk fram af ásetningi þegar hann skaut stjúpsystur sína til bana. Drápið var skipulagt og yfirvegað,“ segir í dómsorði.

Annika Lindström héraðsdómari les dómsorðið við Héraðsdóm Asker og Bærum.
Annika Lindström héraðsdómari les dómsorðið við Héraðsdóm Asker og Bærum. AFP

Saksóknara og verjanda Manshaus greindi á um hvort árásin á moskuna, þar sem Manshaus var yfirbugaður áður en honum tókst að skjóta nokkurn, hefði verið fullframið hryðjuverk. Taldi Unni Fries verjandi aðeins um tilraun til hryðjuverks að ræða sem vægari refsing liggur við. Dómurinn taldi hins vegar að háttsemin í moskunni væri tvö ólík brot, tilraun til manndráps og tilraun til hryðuverks.

Áhersla á niðurstöðu geðlæknis

Annika Lindström héraðsdómari fór yfir aðdragandann að verknaði Manshaus og taldi upp aðdáun hans á ódæðismanninum á Nýja-Sjálandi, mikinn lestur hans á vefsíðum þar sem sjónarmiðum nasista var haldið á lofti, yfirlýsingar Manshaus um að „halda hvíta kynstofninum hreinum“ auk að minnsta kosti eins fundar hans með norrænu hægriöfgasamtökunum Den nordiske motstandsbevegelsen.

Manshaus ásamt verjanda sínum Unni Fries fyrir héraðsdómi í morgun.
Manshaus ásamt verjanda sínum Unni Fries fyrir héraðsdómi í morgun. AFP

„Rétturinn leggur áherslu á niðurstöðu geðlæknis og forsendur hennar og telur ekkert hafa komið fram við málsmeðferðina sem verða megi til þess að draga niðurstöðuna í efa,“ sagði Lindström og benti að lokum á að Manshaus hefði verið allsgáður með öllu er hann lét til skarar skríða í fyrrasumar.

NRK

VG

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert