Farage rekinn eftir ummæli um mótmælendur

Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins.
Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins. AFP

Nigel Farage hefur verið rekinn úr starfi útvarpsmanns á bresku útvarpsstöðinni LBC eftir ummæli sem hann lét falla um hreyfinguna Black Lives Matter, sem hefur farið mikinn í mótmælum gegn lögregluofbeldi og kynþáttafordómum í Bandaríkjunum.

Slökkt var á hljóðnema Farage í þættinum Good Morning Britain eftir að hann bar mótmælendur úr röðum Black Lives Matter í Bretlandi saman við hryðjuverkamenn úr röðum talíbana. Farage, sem er formaður Brexit-flokksins, og góðvinur Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur starfað sem útvarpsmaður á LBC en hann lét af störfum sem evrópuþingmaður er Bretar gengu úr Evrópusambandinu 31. janúar.

Á vef Business Insider segir að talsmaður LBC hafi ekki gefið almennilegar skýringar á ástæðu uppsagnarinnar en haft eftir honum að samningur Farage við LBC hafi verið við það að renna út og eftir viðræður hefði verið ákveðið að hann léti af störfum samstundis.

Útbreidd óánægja vegna ummælanna

Samkvæmt heimildum miðilsins var ákvörðunin tekin vegna útbreiddrar óánægju meðal starfsmanna fyrirtækisins, einkum starfsmanna úr minnihlutahópum, með ummæli hans. Tvískinnungur væri að stöðin lýsti opinberlega yfir stuðningi við Black Lives Matter-hreyfinguna á sama tíma og maður sem líkti henni við talíbana væri þar á dagskrá.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Farage liggur undir ámælum fyrir kynþáttafordóma, en í ötullegri baráttu sinni fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var honum tíðrætt um útlendinga. Vakti skilti, þar sem varað var við yfirvofandi komu flóttafólks til landsins, mikla athygli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert