Pútín gagnrýnir forystuleysi í Bandaríkjunum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti virðist ekki hrifinn af því hvernig Donald …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti virðist ekki hrifinn af því hvernig Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tekist á við faraldurinn og ástandið vegna hans. AFP

Vladmír Pútín Rússlandsforseti sagði að mótmælin gegn rasisma og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum undanfarnar vikur endurspegli vandamál þjóðarinnar þegar hann tjáði sig í fyrsta skipti um stöðuna í Bandaríkjunum í dag. Hann gagnrýndi forystuleysi í Bandaríkjunum í baráttunni við COVID.

„Það sem er að eiga sér stað endurspeglar djúpstæð vandamál,“ sagði hann í viðtali við miðillinn Rossiya 1. Hann sagði tengingu vera á milli óeirðanna og mótmælanna og heimsfaraldurs kórónuveiru.

„Þetta sýnir að það eru vandamál til staðar. Baráttan við kórónuveiruna beindi kastljósinu að öðrum vandamálum,“ bætti hann við í viðtalinu en það er einungis búið að birta brot úr því. Viðtalið verður sýnt í fullri lengd í kvöld og verður það fyrsta viðtalið við forsetann síðan faraldurinn skall á þar í landi.

Hann bar einnig saman stöðuna í Rússlandi og Bandaríkjunum og sagði að á meðan Rússar væru hægt og rólega að ná tökum á faraldrinum með tiltölulega fáum dauðsföllum væri staðan önnur í Bandaríkjunum.

Forsetinn segir eitt en ríkisstjórar annað

Rússland er í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem flest staðfest smit hafa greinst en þau eru orðin 528.964 talsins, þar af greindust tæplega níu þúsund síðasta sólarhringinn. Flest smit hafa greinst í Bandaríkjunum þar sem rúmlega tvær milljónir smita hafa greinst.

Þá gagnrýndi hann að því er virðist Donald Trump Bandaríkjaforseta þegar kemur að því að takast á við faraldurinn. „Forsetinn segir að það eigi að gera hitt og þetta en ríkisstjórarnir segja annað. Ég held að vandamálið sé að hagsmunir stjórnmálaflokka eru í forgangi í stað hagsmuna fólksins og samfélagsins í heild.“

Hann sagðist efast stórlega um að einhver í Rússlandi myndi ekki fara eftir fyrirmælum hans um það hvernig ætti að haga sér í sambandi við faraldurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert