Afturkalla neyðarleyfi vegna hýdroxýklórókíns

AFP

Matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) afturkallaði í dag neyðarleyfi sem hún gaf út fyrir lyfjunum hýdroxýklórókín og klórókín svo hægt væri að nota þau til meðferðar við COVID-19. CNN greinir frá þessu.

Donald Trump Bandaríkjaforseta varð tíðrætt um ágæti lyfsins opinberlega og hefur hann haldið því fram að hann hafi notað það sjálfur. Eftir að FDA skoðaði nýjustu rannsóknir á lyfjunum ákvað stofnunin að lyfin uppfylltu ekki lögbundin skilyrði fyrir neyðarleyfi. 

Þekkt áhætta vegi þyngra en ávinningur

„FDA hefur komist að þeirri niðurstöðu að á grundvelli nýjustu upplýsinga og annarra upplýsinga sem fjallað er um í minnisblaði stofnunarinnar sé ekki lengur skynsamlegt að ætla að inntaka lyfjanna geti verið áhrifarík við meðhöndlun COVID-19-sjúklinga. Ekki er heldur talið skynsamlegt að trúa því að þekktur og hugsanlegur ávinningur þessara lyfja vegi þyngra en þekkt og möguleg áhætta af inntöku þeirra,“ skrifaði Denise Hinton, aðalvísindamaður FDA, í bréfi til rannsóknar- og þróunarstofnunarinnar BARDA sem Hinton sendi í dag. 

Lyfin tvö sem um ræðir hafa verið tengd alvarlegum hjartatilvikum auk annarra aukaverkana hjá COVID-19-sjúklingum. 

Læknar í Bandaríkjunum munu geta haldið áfram að ávísa lyfjunum með lyfseðlum eins og öðrum lyfjum. Neyðarleyfi FDA vegna lyfjanna var þröngt að umfangi og snerti aðeins COVID-19-sjúklinga sem voru innlagðir á sjúkrahús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert