Bjargaði lífi öfgahægrisinna

Vinir hans skýldu manninum á meðan Hutchinson lyfti honum upp …
Vinir hans skýldu manninum á meðan Hutchinson lyfti honum upp á öxl sér, en hann segir að fólk hafi enn verið að veitast að manninum á meðan hann bar hann í burtu. AFP

Ljósmynd af þeldökkum manni að bera slasaðan hvítan mót-mótmælanda í skjól hefur farið eins og eldur um sinu á netinu. Hann segir að hann og vinir hans hafi bjargað lífi mannsins.

Patrick Hutchinson var staddur á friðsælum mótmælum í London í tengslum við dauða George Floyds, sem var drepinn af lögreglumanni sem kraup á hálsi hans í nærri níu mínútur, þegar hann og vinir hans urðu varir við mikinn troðning í kjölfar þess að átök brutust út þegar öfgahægrisinnar mættu til þess að mótmæla mótmælunum.

Í viðtali við BBC segist Hutchinson hafa séð mann hníga niður og að hann og vinir hans hafi flýtt sér á staðinn til að tryggja að maðurinn yrði ekki troðinn niður.

Vinir hans skýldu manninum á meðan Hutchinson lyfti honum upp á öxl sér, en hann segir að fólk hafi enn verið að veitast að manninum á meðan hann bar hann í burtu.

„Ég hugsaði ekki, ég sá bara manneskju á jörðinni. Þetta hefði ekki endað vel ef við hefðum ekki gripið inn í. Við gerðum það sem við þurftum að gera. Við komum í veg fyrir að einhver yrði drepinn,“ segir Hutchinson, sem hefur bent á að George Floyd væri enn á lífi ef hinir lögreglumennirnir hefðu gripið inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert