Fékk andarunga úr matarbúðareggjunum

Tveir af andarungunum þremur.
Tveir af andarungunum þremur. Ljósmynd/Charli Lello

Kona nokkur í Hertfordskíri á Englandi náði að klekja andarungum úr eggjum sem hún keypti í stórmarkaðnum Waitrose. Konan, Charli Lello, segist hafa fengið hugmyndina eftir að hafa séð myndband á Facebook af fasönum að klekjast úr eggi.

„Þegar ég var í Waitrose sá ég andareggin og hugsaði með mér að kannski myndi það virka líka. Ég var svo spennt að sjá þá klekjast úr eggjunum en var samt meðvituð um að þetta væru stórmarkaðaregg,“ segir Lello í samtali við BBC.

Lello kom eggjunum fyrir í útungunarvél. Um mánuði síðar heyrði hún lágt brothljóð og sá litlu ungana skríða úr eggi. Hún segir um frábæra upplifun að ræða og ungarnir séu „sætir litlu hnoðrar“. Hún hyggst ala þá upp sem gæludýr.

Í samtali við BBC segir talsmaður eggjaframleiðandans, Waitrose, að „virkilega erfitt“ sé að greina kyn hvítfjaðra anda. „Bændurnir okkar vinna hörðum höndum að því að tryggja að steggir og endur séu aðskilin á réttan hátt,“ en mistök geti komið fyrir. „Það er alveg ótrúlegt að þessir ungar hafi klakist út. En við viðurkennum að það er ekki ómögulegt.“

Ljósmynd/Charli Lello
mbl.is