Skærur á landamærum Kína og Indlands

Pangong-vatn í Ladakh-héraði, sem bæði Indverjar og Kínverjar segjast eiga. …
Pangong-vatn í Ladakh-héraði, sem bæði Indverjar og Kínverjar segjast eiga. Þrír Indverjar létust í landamæraskærum í gær. AFP

Þrír indverskir hermenn létust í skærum á landamærum Indlands og Kína í gær. Kínversk stjórnvöld saka Indverja um að hafa ruðst inn fyrir landamæri sín í tvígang og ráðist á kínverska hermenn. Indverjar sögðu hins vegar að mannfall hefði orðið hjá báðum þjóðum og viðræður stæðu yfir.

Atvikið átti sér stað á landamærum ríkjanna í Himalaja-fjöllum á milli Tíbet-héraðs í Kína og Ladakh-héraðs á Indlandi. Landamæri ríkjanna eru um 3.500 kílómetra löng og greinir þjóðirnar á um hvar landamærin liggi á um tuttugu mismunandi stöðum. Hefur oft slegið í brýnu á milli Kínverja og Indverja vegna þessa, en þetta er í fyrsta sinn í áraraðir sem mannfall hlýst af. 

Í yfirlýsingu indverska hersins var tekið fram að mannfall hefði orðið hjá „báðum aðilum“, en Kínverjar nefndu ekki að mannfall hefði orðið í þeirra röðum, en óstaðfestar fregnir sögðu að fimm kínverskir hermenn hefðu dáið. Indverski herinn staðfesti hins vegar að einn liðsforingi og tveir óbreyttir hermenn hefðu fallið sín megin í átökunum. Þá væru yfirmenn í báðum herjum á staðnum að ræða saman til þess að reyna í koma í veg fyrir frekari árekstra. 

Herforingi í indverska hernum sagði við AFP-fréttastofuna undir nafnleynd að ekki hefði verið hleypt af skoti í átökunum, heldur hefðu þarna verið um að ræða hörð handalögmál. Skoti hefur ekki verið hleypt af í deilum ríkjanna frá árinu 1975. 

Aukin spenna í vor

Nokkur spenna hefur ríkt milli ríkjanna tveggja síðan í vor, en 9. maí slösuðust nokkrir indverskir og kínverskir hermenn í átökum með hnefum og grjótkasti, en atvikið átti sér stað við Naku La í Sikkim-ríki Indlands. 

Utanríkisráðuneyti ríkjanna tveggja lýstu því hins vegar yfir í síðustu viku að góður árangur hefði náðst í viðræðum þeirra til þess að leysa deiluna. Indverjar segja hins vegar að kínverskar hersveitir séu enn í hluta Galwan-dals og við Pangong Tso-vatn, sem með réttu tilheyri Indverjum. 

mbl.is