Staðan í Peking „mjög alvarleg“

Umfangsmikið sýnatökuverkefni fer nú fram. Sagt er að hægt sé …
Umfangsmikið sýnatökuverkefni fer nú fram. Sagt er að hægt sé að taka 90 þúsund sýni á dag. AFP

Hópsýkingin sem kom upp í Peking, höfuðborg Kína, um síðustu helgi er „mjög alvarleg“ og líkurnar á annarri bylgju kórónuveirufaraldursins eru sagðar aukast daglega. Greint var frá 27 nýjum smitum í dag en samtals hafa 106 smit greinst í Peking síðustu fimm daga.

Sýkingin er sögð hafa komið upp í Xinfadi-heildsölumarkaðnum, sem er sá stærsti í borginni. Margir starfsmenn markaðarins hafa greinst með veiruna síðustu daga. Búið er að loka markaðnum sem og annarri atvinnustarfsemi í grennd við hann.

Borgaryfirvöld hafa sett á útgöngubann í 30 svæðum í borginni og umfangsmikið sýnatökuverkefni hefur verið sett af stað. Samkvæmt ríkismiðlinum Xinhua er hægt að taka 90 þúsund sýni á dag.

Yfirvöld í Kína voru búin að aflétta takmörkunum vegna faraldursins og höfðu allt að því lýst yfir sigri gegn veirunni.

„Staðan á faraldrinum í höfuðborginni er mjög alvarleg,“ sagði Xu Hejian, talsmaður borgaryfirvalda, á blaðamannafundi.

Hópsýkinguna má rekja til heildsölumarkaðar.
Hópsýkinguna má rekja til heildsölumarkaðar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert