Franskir heilbrigðisstarfsmenn slógust við lögreglu

Þúsundum franskra heilbrigðisstarfsmanna lenti saman við lögreglumenn í mótmælum sem áttu sér stað í París höfuðborg Frakklands í gær. Talið er að 18 þúsund manns hafi komið saman. Heilbrigðisstarfsmenn krefjast hærri launa og að stjórnvöld leggi meira fé í heilbrigðiskerfið í landinu.

Lögreglumenn beittu táragasi á mótmælendur og handtóku að minnsta kosti þrjátíu slíka. Mótmælin fóru friðsamlega af stað en eftir því sem leið á daginn fór að færast hiti í leikana. Hópur 300 mótmælenda er sagður hafa kastað steinum og öðru lauslegu í átt að lögreglu og veltu og kveikt í bílum. Samkvæmt yfirvöldum slösuðust 19 lögreglumenn í átökunum.

Stéttarfélög heilbrigðisstarfsmanna segja að kórónuveirufaraldurinn hafi leitt í ljós veikleika í franska heilbrigðiskerfinu og segja að úrbætur komi til með að kosta mikið fé.

Franska ríkisstjórnin hefur gefið það út að heilbrigðisstarfsmenn sem hafa verið í eldlínunni í faraldrinum muni fá bónusgreiðslur en það er ekki nóg að mati heilbrigðisstarfsmanna. Þeir telja að það þurfi að ráða fleiri starfsmenn og fjölga sjúkrarúmum svo dæmi séu tekin.

BBC og AFP-fréttaveitan greina frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert