Pútín notar sérstök „sótthreinsigöng“

Putin sést hér flytja ræðu sína.
Putin sést hér flytja ræðu sína. AFP

Þeir gestir sem fá að upplifa þann heiður að koma á fund Vladimír Pútín Rússlandsforseta þurfa að ganga í gegnum sérsmíðuð göng eða klefa sem úðar sótthreinsunarefni á þá áður en þeir hitta forsetann. Er þetta gert til þess að lágmarka áhættuna á því að forsetinn smitist af COVID-19.

Rússneski fjölmiðilinn Ria Novosti greindi frá þessu í gær og birti myndir og  myndskeið af göngunum sem hafa verið sett upp í forsetabústaðnum í Novo-Ogaryovo í Moskvu þar sem forsetinn dvelur alla jafna. Pútín hefur verið í sjálfskipaðri einangrun eftir að hafa mætt á viðburð 12. júní án andlitsgrímu.

Fyrirtækið sem hannaði og smíðaði búnaðinn framleiðir sjálfvirkan hreinsibúnað sem helst er notaður í atvinnurekstri. Göngin sem fyrirtækið smíðaði fyrir forsetann úðar ekki einungis sótthreinsunarefni á þá sem ganga í gegnum þau heldur mælir það líkamshita og er búið andlitsgreiningarbúnaði.

Strangar reglur gilda um hverjir mega hitta forsetann og hvenær en öllum er gert að fara í sýnatöku áður.

Rúmlega 540 þúsund smit hafa greinst í Rússlandi samkvæmt gögnum John Hopkins-háskólans og 7.174 hafa látið lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert