Hálfbróðir Fullers skotinn til bana

Frá minningarathöfn um Robert Fuller
Frá minningarathöfn um Robert Fuller AFP

Terron Boone, hálfbróðir Roberts Fuller, ungs svarts manns sem fannst látinn hangandi úr tré í borginni Palmdale í Los Angeles sýslu í Bandaríkjunum í síðustu viku, var skotinn til bana í gær af lögreglumönnum í skotárás í Rosamond hverfi í Palmdale samkvæmt lögmanni fjölskyldu Boone. 

Mikil gagnrýni hefur komið fram vegna þess hvernig lögreglan fór að við rannsókn á dauða Fullers en dánarorsök hans var fyrst skráð sjálfsvíg. Því trúa hans nánustu ekki og hefur vinnubrögðunum verið mótmælt. 

Lt. Robert Westphal, sýslumaður í Los Angeles segir að skotárásin hafi átt sér stað við rannsókn á mannráni og líkamsárás. Dómaskrár sýna að Boone hafði verið ákærður fyrir nokkrar sakir, hótanir, líkamsárás og heimilisofbeldi. 

AFP

Sjö ára stúlka í bílnum á meðan skothríðinni stóð

Síðdegis á miðvikudag eltu rannsóknarlögreglumenn í Westphal bifreið sem hinn grunaði sat í og fylgdu honum eftir til Rosamond. Þeir reyndu að stöðva bifreiðina þar en Boone er sagður hafa stigið út úr bílnum og hafið skothríð. Hann hafi skotið í það minnsta fimm skotum í átt að rannsóknarlögreglumönnunum sem hófu einnig skothríð sem lauk með andláti Boone. 

Kona sem ók bílnum varð fyrir einu skoti en særðist ekki lífshættulega. Sjö ára stúlka sem sat í aftursæti bílsins slasaðist ekki. Samband barnsins við Boone og konuna er óljóst. 

AFP

Engar búkmyndavélar

Enginn rannsóknarlögreglumannanna var með búkmyndavél og voru slíkar vélar ekki á ökutækjum þeirra heldur. Myndskeið úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu sýna fjölmörg ökutæki króa ökutæki Boone af inni á bílastæðinu þar sem skotárásin átti sér stað. 

Andlát Fullers dró að sér mikla athygli samhliða mótmælum vegna lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. Fuller fannst hangandi úr tré í Palmdale 10. júní og var dánarorsökin fyrst skráð sjálfsvíg. Eftir að mótmæli brutust út vegna þeirrar útskýringar lofuðu lögreglumenn að rannsaka málið með alríkislögreglunni. 

Fjölskylda Fullers og vinir trúa því ekki að hann hafi framið sjálfsvíg og hefur fjöldi fólks mótmælt því hvernig lögreglan tókst á við andlát hans. Nokkrum dögum áður en Fuller lést tók hann þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi.

mbl.is