Lögreglumennirnir gáfu sig fram

Paul L. Howard Jr. saksóknari kynnti kæruna á hendur lögreglumönnunum …
Paul L. Howard Jr. saksóknari kynnti kæruna á hendur lögreglumönnunum í gær. AFP

Að búið sé að ákæra lögregluþjónana tvo sem urðu Rayshard Brooks að bana í Atlanta í Bandaríkjunum í síðustu viku er aðeins fyrsta skrefið á langri og óvissri leið að sakfellingu, segir lögmaður fjölskyldu fórnarlambsins. 

Lögreglumennirnir, Garrett Rolfe, sem skaut Brooks, og Devin Brosnan sem er sakaður um að hafa staðið á öxl fórnarlambsins, hafa báðir gefið sig fram við lögreglu. Rolfe er kærður fyrir morð og fjölda annarra brota og er sagður hafa sagt: „Ég náði honum“ eftir að hafa hleypt af skotunum.

Þetta kemur fram í frétt CNN um framvindu málsins.

Rolfe sleppti því þá ekki aðeins að hjúkra Brooks eftir að hann skaut hann, heldur segir saksóknari hann hafa sparkað í manninn þar sem hann lá fyrir dauðanum.

Brosnan, sem var sleppt úr haldi í dag um klukkustund eftir að hann gaf sig fram í fangelsi í Atlanta, þarf ekki að vera með GPS-ökklaband. Hann vildi ekki ræða við fjölmiðla á leiðinni út úr fangelsinu. Brosnan er kærður fyrir alvarlega líkamsárás.

Morðið á Brooks kemur á stormasömum tíma í bandarísku þjóðlífi, en mikil mótmælaalda hefur riðið yfir allar götur síðan George Floyd var drepinn af lögreglumönnum í Minneapolis í lok maí. Brooks fyllir stóran flokk svartra Bandaríkjamanna sem hafa verið drepnir af lögreglu tilhæfulaust á síðustu árum og áratugum. Hann skildi eftir sig þrjár dætur og stjúpson.

Tomika Miller, ekkja Brooks, segir að það hafi verið hörmulegt …
Tomika Miller, ekkja Brooks, segir að það hafi verið hörmulegt að hlusta á smáatriðin í dauða eiginmanns hennar rakin í réttarsalnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert