21 ár fyrir stærsta spillingarmál Noregs

Eirik Jensen við fyrri réttarhöldin.
Eirik Jensen við fyrri réttarhöldin. AFP

Lögmannsréttur í Borgarþingi í Osló dæmdi í morgun fyrrum yfirlögregluþjóninn Eirik Jensen í 21 árs fangelsi fyrir alvarlega spillingu og fíkniefnabrot. Ágreiningur var um refsingu á meðal dómaranna sjö sem dæmdu Jensen. 

Jensen var dæmdur fyrir hlutdeild að smygli á um 14 tonnum af hassi til Noregs en hann starfaði í deild sem rannsakaði fíkniefnamál og skipulagða brotastarfsemi. 

Þegar dómurinn féll hallaði Jensen sér fram og hvíldi hnefana á borðinu. Hann leit stuttlega á félaga sinn og hristi höfuðið. 

Dómur yfir Cappelen mildaður

Með dómnum staðfesti lögmannsrétturinn dóm lægra dómsstigs sem áður hafði fallið en um er að ræða stærsta og um­talaðasta spill­ing­ar­mál Nor­egs fram á þenn­an dag.

Réttað var yfir Jensen og Gjermund Cappelen, samverkamanni hans, samtímis en Cappelen viðurkenndi fyrir dómi að hann hafi smyglað miklu magni fíkniefna til landsins og sagðist Cappelen hafa gert það með aðstoð Jensen. Dómurinn yfir honum var léttvægari en sá yfir Jensen og var styttur úr fimmtán árum í þrettán. 

Jensen hefur ávallt neitað öllum sakargiftum en brot hans eiga að hafa staðið yfir tuttugu ára tíambil. Jensen var dæmdur til að láta af hendi um eina og hálfa milljón norskra króna, eða því sem nemur 21,5 milljónum íslenskra króna, sem fundust í eigu hans. 

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert