Lögreglumaður rekinn vegna Breonna Taylor

Mótmælandi heldur uppi mynd af Breonna Taylor.
Mótmælandi heldur uppi mynd af Breonna Taylor. AFP

Lögreglumaður sem átti þátt í aðgerðum þar sem 26 ára gömul svört kona var skotin átta sinnum er hún lá í rúmi sínu á heimili sínu verður rekinn. Þetta tilkynnti Greg Fischer, borgarstjóri Louisville í Kentucky, rétt í þessu.

Breonna Taylor var sofandi þegar lögregla réðst inn á heimili hennar og kærasta hennar. Um var að ræða svokallaða „no-knock“-húsleit vegna ábendingar sem lögreglu barst um að hugsanlega færi starfsemi tengd fíkniefnum fram á heimilinu. Kærasti Taylor vaknaði við lætin og kallaði og spurði hver væri þar á ferð en fékk ekkert svar og greip því byssu sína og hleypti af einu skoti.

Lögreglumennirnir brugðust ókvæða við og hleyptu af fjölmörgum skotum. Taylor varð fyrir átta skotum þar sem hún lá í rúmi sínu og lést. Seinna kom í ljós að lögreglumennirnir höfðu farið húsavillt.

„No-knock“-húsleitir aflagðar

Atvik þetta átti sér stað 13. mars en hefur komist í hámæli í kjölfar mikillar vitundarvakningar um ofbeldi bandarísku lögreglunnar gagnvart svörtum Bandaríkjamönnum í kjölfar þess að lögreglumaður drap George Floyd með því að krjúpa á hálsi hans í tæpar níu mínútur við handtöku.

Í kjölfar þess að athygli var vakin á máli Taylor hafa húsleitir sem þessar, þar sem lögregla þarf ekki að banka áður en ráðist er inn á heimili fólks, verið aflagðar í Kentucky. Gríðarleg reiði hefur hins vegar verið vegna þess að atvikið hafði engin áhrif á lögreglumennina sem áttu hlut að máli.

Frétt NYT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert