750 ma. evra aðgerðapakki til umræðu

Macron Frakklandsforseti tók þátt í fundinum úr Elysee-höll í París.
Macron Frakklandsforseti tók þátt í fundinum úr Elysee-höll í París. AFP

Aðgerðapakki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna til stuðnings þeim ríkjum sem verst hafa farið út úr kórónuveirufaraldrinum var lagður fram á fjarfundi leiðtogaráðs sambandsins á föstudag. Lagt er til að björgunarsjóðurinn telji 750 milljarða evra. Tveir þriðju hlutar yrðu greiddir út sem styrkir en þriðjungur í formi lána.

„Þessi tillaga er metnaðarfull og sanngjörn,“ segir Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB. Pakkinn muni ekki aðeins gagnast þeim löndum sem veiran bitnaði mest á heldur einnig þeim sem komu illa út úr lokunum. Með pakkanum mætti byggja upp sterkara Evrópusamband sem gæti staðið af sér erfiðleika til framtíðar.

Leiðtogafundurinn stendur yfir alla helgina en vonir standa til að samkomulagið náist um tillöguna eða einhverjar málamiðlanir í næsta mánuði.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og Charles Michel, forseti …
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, og Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, létu sig ekki vanta. AFP

Of stór biti, segir Löfven

Leiðtogar fjögurra ríkja í norðurhluta álfunnar hafa sett sig upp á móti hugmyndunum, telja björgunarsjóðinn of stóran og vilja að stærra hlutfall hans verði veitt ríkjum að láni en minna að styrk. Ríkin fjögur eru Svíþjóð, Danmörk, Holland og Austurríki.

„Við teljum að björgunarsjóðurinn eigi að byggjast á lánum en ekki styrkjum til aðildarríkja. Sú tillaga sem nú er til umræðu þýðir í raun að fjárlög Evrópusambandsins aukist um 50% og það er ekki viðunandi,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar að fundi loknum. Fjárlög ESB til áranna 2021-2027 gera ráð fyrir að önnur útgjöld verði um 1.100 milljarðar króna, eða um 1% af vergri landsframleiðslu sambandsins. Slíkt jafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna fyrir Ísland.

mbl.is