Fjölmiðlafrelsi í mikilli hættu

Lagsmaður Viktors Orban forsætisráðherra keypti helmingshlut í Index.hu í mars.
Lagsmaður Viktors Orban forsætisráðherra keypti helmingshlut í Index.hu í mars. AFP

Ritstjóri vinsælasta fréttavefjar Ungverjalands varar við því að yfirvofandi skipulagsbreytingar hjá fjölmiðlinum muni skerða frelsi hans til að birta gagnrýnar greinar um ríkisstjórn Viktors Orban forsætisráðherra.  

„Index.hu, stærsti fréttavefur Ungverjalands og ein af fáum sjálfstæðum röddum sem eftir er, er í mikilli hættu,“ skrifar ritstjórinn Szabolcs Dull í yfirlýsingu sem birtist á vefnum.

Dull skrifar að yfirvofandi skipulagsbreytingar á fjölmiðlinum muni setja hann undir svo mikla utanaðkomandi pressu að það myndi líklega þýða endalok núverandi ritstjórnar miðilsins.

„Við viljum fréttavef þar sem stjórnmálamenn, sendiboðar ríkisstjórnarinnar eða fjármálafrömuðir hafa engin völd til að koma í veg fyrir birtingu efnis.“

Ungverski fréttamiðillinn 24.hu hefur einnig fjallað um yfirvofandi skipulagsbreytingar Index, en samkvæmt þeirra heimildum felast þær m.a. í útvistun stórs hluta fréttaskrifa fjölmiðilsins sem hugsanlega myndi leiða til uppsagna stórs hluta núverandi starfsfólks.

Samkvæmt 24.hu segja stjórnendur Index hrun í auglýsingasölu vegna kórónuveirunnar vera ástæðu skipulagsbreytinganna, en stutt er síðan lagsmaður Orban og viðskiptamaðurinn áhrifamikli Miklos Vaszily keypti helmingshlut í Index. 

Vaszily lýsti því yfir að hann vildi að Index yrði áfram sjálfstæður fjölmiðill, en bæði starfsfólk Index og aðrir sérfræðingar töldu kaup hans í fjölmiðlinum mikla ógn við sjálfstæðan fréttaflutning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert