Nýfæddir þríburar greindust með COVID-19

Börnin eru í sérstökum einangrunarvöggum, svipuðum þessum á fæðingadeildinni í …
Börnin eru í sérstökum einangrunarvöggum, svipuðum þessum á fæðingadeildinni í spítala í San José í Mexíkó. AFP

Nýfæddir þríburar í Mexíkó greindust með COVID-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur. Læknar reyna nú að komast að því hvort nýburarnir smituðust mögulega í gegnum fylgju í móðurkviði. 

Líðan tveggja barnanna, stúlku og drengs, er stöðug en það þriðja, drengur, á í öndunarerfiðleikum og hefur fengið viðeigandi meðferð. 

Að sögn heilbrigðisyfirvalda er ekki vitað til þess að smit hafi greinst hjá nýfæddum fjölburum, hvorki í Mexíkó né annars staðar í heimnum, og því verða smitin rannsökuð sérstaklega. 

Örlítill hluti nýbura hefur greinst með veiruna eftir fæðingu en heilbrigðisyfirvöld telja það ekki tilfellið hjá þríburunum. Ekki var grunur um smit hjá foreldrunum en þau hafa nú farið í sýnatöku. Mögulegt er að þau séu með veiruna en einkennalaus með öllu. 

Yfir 185 þúsund tilfelli kórónuveirusmita hafa greinst í Mexíkó og 22.584 hafa látið lífið frá því að fyrsta smitið greindist þar í landi 28. febrúar, sem er einmitt sami dagur og fyrsta smitið greindist á Íslandi.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert