Twitter felur annað tíst forsetans

Í færslunni skrifar Trump að aldrei verði „sjálfsstjórnarsvæði“ í höfuðborginni …
Í færslunni skrifar Trump að aldrei verði „sjálfsstjórnarsvæði“ í höfuðborginni Washington D.C. á meðan hann gegni embætti forseta. AFP

Erjum samfélagsmiðilsins Twitter og Donalds Trump Bandaríkjaforseta virðist hvergi nærri lokið, en Twitter hefur falið tíst forsetans frá í dag vegna brota á reglum miðilsins um hrottalega hegðun.

Í færslunni skrifar Trump að aldrei verði „sjálfsstjórnarsvæði“ í höfuðborginni Washington D.C. á meðan hann gegni embætti forseta. „Ef þau reyna verður þeim mætt með alvöru valdi!“ skrifar forsetinn.

AFP

Tíst forsetans er falið, en samkvæmt tilkynningu Twitter var því ekki eytt, þrátt fyrir brot á reglum, vegna þess að talið er að það gæti varðað almannahagsmuni að halda færslu forsetans aðgengilegri.

Um er að ræða annað tíst forsetans sem Twitter hefur falið vegna brota á reglum um orðræðu um ofbeldi, en auk þess hefur samfélagsmiðilinn minnst þrisvar sett fyrirvara við færslur hans þar sem varað var við því að tíst hans væri misvísandi eða innihéldi falsefni.

mbl.is