Hætta við hernaðaráform á hlutlausa svæðinu

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hætt við að senda herlið inn …
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hætt við að senda herlið inn á hlut­lausa svæðið sem aðskil­ur ríkið frá nágrönnum sínum í Suður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hætt við að senda herlið inn á hlut­lausa svæðið sem aðskil­ur ríkið frá nágrönnum sínum í Suður-Kóreu. Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu greindu frá þessu í gærkvöld. 

Afar stirt hefur verið í samskiptum ríkjanna síðustu vikur, ekki síst eftir að Norður-Kórea sprengdi í loft upp sam­vinnu­stofn­un ríkj­anna sem var staðsett við landa­mæra­bæ­inn Kae­song, á yf­ir­ráðasvæði Norður-Kór­eu. Stofn­un­inni var ætlað að bæta tengsl land­anna tveggja. 

Norður-Kórea hefur einnig látið fjarlægja hátalara á landamærunum sem notaðir voru til að dreifa áróðri. 

Laura Bicker, fréttaritari BBC í Seoul, segir sérfræðinga í stjórnmálaástandinu á Kóreuskaga nú velta fyrir sér hvort atburði síðustu vikna megi rekja til eins konar valdabaráttu milli systkinanna Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og Kim Yo-jong. 

Þannig sé Kim Jong-un að leika „góðu lögguna“ á meðan systir hans vilji sýna að hún, rétt eins og bróðir hennar, geti sýnt óútreiknanlega hörku. Það gæti komið sér vel í samningaviðræðum framtíðarinnar þar sem áformum um að beita hernaði í Suður-Kóreu hefur verið slegið á frest en ekki aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert